Góðgerðasamtök á vegum Karls Bretaprins fengu um eina milljón punda, rúmlega 160 milljónir íslenskra króna, frá Bakr bin Laden, hálfbróður Osama bin Laden, fyrrverandi leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaida. Þetta kemur fram í umfjöllun The Sunday Times.
Karl, sem er framtíðar konungur Bretlands, hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa þáð þetta fé en ráðgjafar hans ráðlögðu honum að taka ekki við fénu.
Í svari Clarence House, skrifstofu Karls, segir að lokaákvörðun hafi verið tekin af fjárvörsluaðilum góðgerðasamtakanna, en ekki prinsinum sjálfum.
Ian Cheshire, formaður samtakanna, sagði einnig að fimm fjárvörsluaðilar hefðu samþykkt framlagið og að allar tilraunir til að gefa annað í skyn væru villandi og ónákvæmar.
Góðgerðasamtök Karls voru stofnuð árið 1979 til að breyta lífum og byggja upp sjálfbær samfélög. Samtökin veita styrki til ýmissa verkefna í Bretlandi og víða um heim.
Karl hefur staðið frammi fyrir mikilli gagnrýni á hvernig samtökunum er stjórnað og við hvaða framlögum er tekið en í júní var greint frá því að Karl hefði tekið við poka sem innihéldi þrjár milljónir Bandaríkjadollara frá Sheikh Hamad bin Jassim bin Jaber Al Thani, fyrrverandi forsætisráðherra Katar.