Sam­tök at­vinnu­lífsins telja for­sendur Lífs­kjara­samningsins brostnar og að samnings­aðilum beri að bregðast við. Þeim sé heimilt að segja kjara­samningum upp um komandi mánaða­mót komi verka­lýðs­hreyfingin ekki til móts við at­vinnu­lífið og að­lagi kjara­samninga að gjör­breyttri stöðu efna­hags­mála.

Þetta kemur fram í til­kynningu sem Sam­tök at­vinnu­lífsins sendu frá sér nú á sjötta tímanum. Í henni kemur fram að sam­tökin hafi átt sam­töl við for­ystu verka­lýðs­hreyfingarinnar, með form­legum og ó­form­legum hætti, um við­brögð við for­sendu­brestinum og m.a. bent á eftir­farandi þætti:

 • Skömmu fyrir gerð Lífs­kjara­samningsins spáði Hag­stofa Ís­lands 10,2% sam­felldum hag­vexti árin 2019-2022, en í júní síðast­liðnum var 0,8% vexti spáð á þessum fjórum árum. Þannig er nú gert ráð fyrir að lands­fram­leiðslan verði 300 milljörðum króna lægri á árinu 2021 en gert var ráð fyrir við undir­ritun Lífs­kjara­samninga.
 • Kostnaðar­auki at­vinnu­lífsins vegna tveggja launa­hækkana sem komið hafa til fram­kvæmda vegna Lífs­kjara­samningsins var metinn til u.þ.b. 90 milljarða króna, sem sam­svarar fjórum milljörðum á mánuði. Launa­mælingar Hag­stofunnar sýna heldur meiri hækkanir en stað­festa matið í megin­at­riðum. Tvær sam­bæri­legar hækkanir eiga eftir að koma til fram­kvæmda, um næstu og þar­næstu ára­mót. Ljóst er að fjár­munir fyrir þeim launa­hækkunum eru ekki til í at­vinnu­lífinu.
 • Skráð at­vinnu­leysi var 8,5% í ágúst sl. og þar til við­bótar var 1% vinnu­markaðarins í skertu starfs­hlut­falli. Vinnu­mála­stofnun gerir ráð fyrir 9-10% at­vinnu­leysi á næstu mánuðum sem sam­svarar um 20 þúsund manns. Að auki hafa margir horfið af vinnu­markaði. Gera má ráð fyrir að u.þ.b. 25 þúsund manns verði án at­vinnu í heild eða að hluta í árs­lok.

Að mati Sam­taka at­vinnu­lífsins séu aug­ljós­lega engar for­sendur fyrir hækkun launa­kostnaðar í at­vinnu­lífinu. Til að bregðast við þessum for­sendu­bresti kynntu SA nokkrar leiðir.

Frestun launa­hækkana og lenging kjara­samnings sem henni nemur

 • Bregðast við með því að lengja í kjara­samningum og fresta öllum dag­setningum þeirra sem nemur lengingunni – en að Lífs­kjara­samningurinn verði að fullu efndur. Árið er farið for­görðum og þessi nálgun rímar vel við aðrar að­gerðir í sam­fé­laginu að at­vinnu­lífið og launa­fólk bíði storminn af sér í sam­einingu.

Tíma­bundin lækkun á fram­lagi at­vinnu­rek­enda í líf­eyris­sjóði

 • Í að­draganda launa­hækkunar 1. maí síðast­liðinn fóru fram við­ræður við hluta verka­lýðs­hreyfingarinnar um tíma­bundna lækkun á mót­fram­lagi at­vinnu­rek­enda í líf­eyris­sjóði til að draga úr launa­kostnaði at­vinnu­rek­enda. Um væri að ræða tíma­bundna ráð­stöfun.

Tíma­bundin frestun endur­skoðunar kjara­samninga

 • Meðan ekki liggur fyrir hvort eða hve­nær bólu­efni gegn CO­VID-19 sjúk­dómnum kemur er ljóst að aðilar taka af­drifa­mikla á­kvörðun á grund­velli mjög ó­full­kominna upp­lýsinga, en til­koma bólu­efnis mun gjör­breyta efna­hags­for­sendum á næsta ári til hins betra. Sam­kvæmt spám þeirra sem best þekkja til má gera ráð fyrir því að traustari upp­lýsingar um tíma­feril fram­boðs á bólu­efni og bólu­setningar liggi fyrir innan fárra mánaða.

Þá segir í tilkynningunni að til við­bótar séu Sam­tök at­vinnu­lífsins til­búin til við­ræðna um hvers kyns að­gerðir til að fjölga störfum og styrkja við­náms­þrótt at­vinnu­lífsins.

Segja ASÍ hafna öllu sam­starfi

Í tilkynningu Samtaka atvinnulífsins kemur fram að á for­manna­fundi ASÍ þann 22. septem­ber síðastliðinn hafi öllum til­lögum SA verið hafnað og bætt um betur með því að hóta víð­tækum verk­föllum. „Öll við­brögð ASÍ lýsa skilnings­leysi á að­stæðum í at­vinnu­lífinu og hótanir um verk­föll eru full­kom­lega inni­stæðu­lausar enda aug­ljóst að verk­föll muni einungis valda fé­lags­mönnum ASÍ enn meira tjóni en þegar er orðið.“

Þá kemur fram að launa- og for­sendu­nefnd ASÍ og SA hafi lokið störfum án þess að sam­eigin­leg niður­staða næðist um mat á for­sendum.

„Að mati SA er ljóst að til­tekin tíma­sett vil­yrði í yfir­lýsingu stjórn­valda frá 3. apríl 2019 hafa ekki gengið eftir sem veitir báðum samnings­aðilum heimild til að lýsa því yfir að for­sendur kjara­samninga hafi brostið. Grund­vallar­for­senda kjara­samninganna um aukna verð­mæta­sköpun í at­vinnu­lífinu, sem er for­senda launa­hækkana, hefur ekki gengið eftir og kallar á endur­skoðun samninganna. Fram­kvæmda­stjórn SA hefur það hlut­verk að taka af­stöðu til þess hvort kjara­samningar eigi að halda gildi sínu. Vegna þeirrar á­kvörðunar mun fram­kvæmda­stjórnin boða til alls­herjar­at­kvæða­greiðslu á meðal aðildar­fyrir­tækja SA um af­stöðu þeirra til upp­sagnar kjara­samninga, sem taki gildi þann 1. októ­ber 2020.“

Drífa Snædal er forseti ASÍ.

ASÍ segir forsendur ekki brostnar

ASÍ sendi frá sér til­kynningu nú á sjötta tímanum þar sem fram kom að for­sendur Lífs­kjara­samningsins, sem undir­ritaðir voru í apríl 2019, hefðu staðist að mati sam­bandsins.

Í til­kynningu sinni benti ASÍ á að lífs­kjara­samningurinn hefði hvílt á þremur for­sendum:

 1. Að kaup­máttur hafi aukist á samnings­tímanum.
  2. Að vextir hafi lækkað fram að endur­skoðun samningsins.
  3. Að stjórn­völd hafi staðið við gefin fyrir­heit sam­kvæmt yfir­lýsingum ríkis­stjórnarinnar sem gefnar voru í tengslum við samningana.

Bendir ASÍ á að kaup­máttur launa hafi aukist um 4,8% það sem af er samnings­tímanum og for­senda um aukinn kaup­mátt launa því staðist. Stýri­vextir hafi lækkað úr 4,5% í 1%, eða um 3 prósentu­stig það sem af er samnings­tímanum. Því hafi for­senda um lækkun vaxta staðist.

„Tíma­sett lof­orð stjórn­valda hafa staðist utan á­kvæði um bann við 40 ára verð­tryggðum lánum. Frum­varp sem tekur á því máli verður hins vegar lagt fram á komandi haust­þingi og er það mat ASÍ að fram­lagning þess á næstu vikum feli í sér efndir á þeim lið yfir­lýsingar ríkis­stjórnarinnar frá apríl 2019.

Af framan­greindum á­stæðum teldi ASÍ og aðildar­fé­lög þess ekki til­efni til að segja upp kjara­samningum á þessum tíma­punkti.

„Verka­lýðs­hreyfingin hefur boðið frið á vinnu­markaði og fyrir­sjáan­leika. Með því sýnum við á­byrgð á erfiðum tímum. Eitt vafa­at­riði stóð út af það er verð­trygginga­málin, en við höfum full­vissu fyrir því að frum­varp verði lagt fram á haust­þingi. Því teljum við ekki til­efni til að lýsa yfir for­sendu­bresti vegna þess,“ segir Drífa Snæ­dal í til­kynningu ASÍ.