Samtökin ´78 lýsa í yfirlýsingu „eindreginni andstöðu“ við breytingar á hegningarlögum vegna þrengingar á ákvæði sem fjallar um hatursorðræðu. Þau segja að fjöldi félagsmanna hafi sett sig í samband við þau og lýst yfir áhyggjum yfir óöryggi sínu vegna fyrirhugaðra breytinga.

„Við erum uggandi yfir því þegar til stendur að gera einhverjar svona breytingar. Þetta gerir íslenska ákvæðið það þrengsta á Norðurlöndunum og við vitum ekki alveg af hverju það er gert. Væntanlega til að víkka út tjáningarfrelsið en við lítum svo á að með því sé gengið á frelsi hinsegin fólks til að fá að vera eins og þau eru,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, ritari Samtakanna ´78, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Í frumvarpinu sem dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði fram á Alþingi þann 6. febrúar kemur fram að með breytingin sé lögð fram til að bæði þrengja gildissvið laganna og til að auka vernd tjáningarfrelsis.

Samtökin gagnrýna þá röksemdarfærslu og segja að það sé „nauðsynlegt að takmarka orðræðu sem dreifir eða hvetur til haturs byggði á umburðarleysi“.

Þau segja sérstaka ástæðu til að hafa áhyggjur af efni greinargerðarinnar og að þrengingin á lögunum sé lögð fram í beinu samhengi við tvo dóma sem féllu árið 2017 í Hæstarétti um hatursorðræðu í garð hinsegin fólks. Dómarnir sem um ræðir féllu vegna kæru samtakanna. Þau kærðu árið 2015 fyrir hatursorðræðu eftir að umræða fór fram á opinberum vettvangi í tengslum við hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar sem samtökin töldu skaðleg hinsegin fólki. Sérstaklega er tekið fram í greinargerð frumvarpsins að þrenging ákvæðisins sé til að bregðast við umræddum dómum og að hefðu lögin verið á þann veg sem nú er lagt til að þeim verði breytt hefðu dómarnir líklega ekki fallið og einstaklingarnir líklega ekki sakfelldir fyrir hatursorðræðu.

„Okkur finnst skrítið að þessir dómar séu teknir út fyrir sviga og að þeir virðast vera hvati að breytingunni á einhvern hátt,“ Þorbjörg

Frumvarpið geti verið stuðningsyfirlýsing við hatursorðræðu

Í yfirlýsingu samtakanna segir að ummælin sem sakfellt var fyrir hafi lýst hatri á hinsegin fólki og bendluðu hinsegin fólk við barnaníð. Þau segja slíka tjáningu ekki aðeins grafa undan friðhelgi einkalífs heldur ræni hinsegin fólk einnig öryggistilfinningu.

Þau óttast að það fólk sem þjáist af fordómum og annað hvort viðhefur sjálft eða samþykkir hatursorðræðu í þeirra garð muni líta á ofangreint frumvarp sem stuðningsyfirlýsingu frá stjórnvöldum.

„Það eru væntanlega ekki skilaboð sem ríkisstjórn sem setur fram í stjórnarsáttmála sínum að Ísland eigi að vera „í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks“ vill senda. Samtökin ‘78 lýsa þess vegna yfir eindreginni andstöðu sinni við frumvarpið,“ segir í yfirlýsingunni.

Núverandi ákvæði hegningarlaga um hatursorðræðu er svohljóðandi;

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Nú liggur fyrir stjórnarfrumvarp frá dómsmálaráðherra þar sem eftirfarandi klausu er bætt aftan við ákvæði um haturorðræðu:

„enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.“

Hatursorðræða oft undanfari ofbeldis

Í yfirlýsingunni segir að samtökin hafi barist fyrir því að hópum hinsegin fólks yrði bætt við ákvæðið. Kynhneigð var bætt við það árið 1996 og síðan kynvitund árið 2014. Samtökin benda á í yfirlýsingu sinni að ofbeldi gegn minnihlutahópum „verði ekki til í tómarúmi“. Þau segja það vel þekkta staðreynd að hatursorðræða sé oft undanfari ofbeldis. Þau benda á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur bent á að „umburðarlyndi og virðing fyrir jafnrétti og mannlegri reisn séu grundvöllur opinna lýðræðissamfélaga. Þess vegna geti ekki aðeins verið réttlætanlegt, heldur nauðsynlegt að takmarka orðræðu sem dreifir eða hvetur til haturs byggðu á umburðarleysi. Í ljósi þessa hefur verið samstaða um að tjáningarfrelsinu þurfi að setja skorður til þess að vernda frelsi minnihlutahópa.“

Þá benda þau á að í greinargerðinni sé fjallað um að ákvæðið verði þrengt þrátt fyrir að það, í dag, stangist ekki á við tjáningarfrelsisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og þrátt fyrir að breytingin muni minnka refsivernd minnihlutahópa gagnvart hatursorðræðu.

„Við erum ekki á móti tjáningarfrelsi en það verður að vera jafnvægi á vernd og tjáningu til þess að við getum byggt hérna almennilegt samfélag þar sem að öllum líður vel. Hatursorðræða er ekki bara eitthvað bull eða raus, það telst í raun sem hatursglæpur og er undanfari grófari hatursglæpa. Það er það sem er svo alvarlegt við þetta. Ef þetta fær að grassera þá getur þetta stigmagnast og það getur gerst hratt,“ segir Þorbjörg að lokum.

Samtökin hyggjast skila inn umsögn um frumvarpið og hvetja önnur félagasamtök og einstaklinga til þess sama.

Yfirlýsingu Samtakanna ´78 er hægt að lesa hér að neðan í heild sinni.