Samtökin 78 fagna 40 ára afmæli í ár og héldu afmælisboð í húsnæði sínu við Suðurgötu í dag, á stofndegi samtakanna, 9. maí. „Við erum afskaplega ánægð með 40 ára afmælið,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag. 

Daníel tók við sem framkvæmdastjóri í júlí í fyrr og eru þau ávallt að vinna að því að koma sínum málstað á dagskrá stjórnvalda. 

„Við erum búin að vera með mikinn þrýsting á stjórnvöld varðandi nýja löggjöf. Við erum í sextánda sæti í Evrópu þegar litið er til löggjafar er varðar hinsegin fólk. Við uppfyllum aðeins 47 prósenta skilyrða sem gefin eru út á hverju ári. Við erum að þrýsta hart á það sé bætt úr því. Að fá jafna stöðu á vinnumarkaði og fá heildarlöggjöf um trans og intersex einstaklinga. Við erum komin mjög langt félagslega, þó við heyrum enn þá dæmi um hatursglæpi og hatursorðræðu, en lagabálkurinn er veikur þegar kemur að réttindum hinsegin fólks,“ segir Daníel. 

Hann segir að undanfarin ár hafi regnhlíf samtakanna víkkað talsvert en þau haldi alltaf í sinn grunngildi. 

„Þó regnhlífin hafi víkkað undanfarin ár þá höldum við alltaf í okkar grunngildi, sem eru réttindabarátta og sýnileiki hinsegin fólks. Við höfum ekkert stigið út úr því,“ segir Daníel að lokum.

Daníel segir margt á döfinni á afmælisárinu og nefnir þar sem dæmi afmæliskvöldverð þann 23. júní og útgáfu blaðs. 

Mikill fjöldi kom í afmælisboðið í dag. Hér að neðan má sjá myndir úr boðinu en vegleg dagskrá var í boði. Hljómsveitin Eva flutti nokkur lög, Jónína Leósdóttir, rithöfundur, las upp úr bók sinni og dragdrottningin Miss Gloria Hole mætti á svæðið. 

Hægt er að kynna sér samtökin og fylgjast með starfi þeirra á heimasíðu þeirra.