Alþingi samþykkti í dag frumvarp dómsmálaráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, um umsáturseinelti eða svokallaða eltihrella. Þeir geta nú átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi.

Áslaug Arna sagði á þingi í dag að það væri mikilvægt að bæta inn grein um umsáturseinelti til að tryggja betur vernd fólks og „þau sjálfsögðu mannréttindi að einstaklingar geti gengið um samfélagið okkar óáreittir.“

Hún sagði að með frumvarpinu væru stigin mikilvæg skref til að auka réttarvernd þeirra sem eru beitt slíku ofbeldi. Hún þakkaði menntamálanefnd sérstaklega fyrir sína vinnu að frumvarpinu.

Samkvæmt þessu verður grein bætt við almenn hegningarlög um umsáturseinelti. Í greininni segir að „hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“

Hægt er að kynna sér málið betur hér.