Skipu­lags- og sam­göngu­ráð Reykja­víkur­borgar sam­þykkti í gær ein­róma, deili­skipu­lag að nýju hverfi á Ár­túns­höfða. Um er að ræða Ár­túns­höfða­svæði 1, sem er efra svæðið í kringum Stór­höfða. „Þetta svæði verður í kringum torg sem mun bera heitið Krossa­mýrar­torg,“ segir Pawel Bar­toszek, for­maður skipu­lags- og sam­göngu­ráðs.

„Þarna verða um 1.570 í­búðir auk verslunar­starf­semi og vonandi menningar­starf­semi. Það munu vonandi um fjögur þúsund manns kalla þennan stað sitt heimili þegar upp­byggingu er lokið.“

Gert er ráð fyrir fjöl­breyttum ferða­máta, bíla­stæði verða í sam­nýtan­legum kjöllurum.

Spenntur fyrir fram­haldinu

Um er að ræða mikla um­breytingu á svæðinu. „Þetta er grátt svæði, eins og það er stundum kallað, með pláss­frekri starf­semi, bíla­sölur mikið til. Þetta er al­geng þróun í borgum, að svæðum sem eru á ein­hverjum tíma­punkti stað­sett í jaðri byggðar er breytt í í­búða­svæði,“ segir Pawel.

Deili­skipu­lagið fer fyrir borgar­ráð, lík­lega í næstu viku, og þaðan í aug­lýsingu í Stjórnar­tíðindum.

Pawel er spenntur fyrir verk­efninu fram­undan.

„Ég geri ekki ráð fyrir að þetta ferli taki mikinn tíma. Eftir það eru það lóða­hafar sem stjórna svo­lítið ferðinni hvað varðar upp­byggingar­hraðann, en það er ekkert því til fyrir­stöðu að flytja starf­semina sem er þarna fyrir og byrja að rífa og byrja að byggja.“