Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og Embættis landlæknis að COVID-19 viðvörunarkerfi sem byggir á litum líkt og veðurviðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands.

Nýja kerfið er þrepaskipt og er búið fjórum mismunandi stigum: Grunnviðmið sem er nefnt nýja normið, gul viðvörun sem kallar á að fólk sé á verði, appelsínugul þegar aukin hætta er við lýði og loks rauð viðvörun þegar alvarlegt ástand ríkir í samfélaginu vegna faraldursins.

Á að auka fyrirsjáanleika

Lengi hefur verið unnið að útfærslu kerfisins en greint hefur verið frá því að tillögur almannavarna hafi verið sendar ríkisstjórninni til umfjöllunar í síðustu viku og var það tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í dag.

Ekki hefur verið gefið út hvaða viðvörunarstig er nú í gildi samkvæmt litakóðunarkerfinu.

Nýja kerfið lýsir fjórum mismunandi áhættustigum.
Mynd/Aðsend

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að viðvörunarkerfinu sé ætlað að auka fyrirsjáanleika til lengri tíma varðandi þær aðgerðir sem grípa þarf til í baráttunni við faraldurinn og lágmarka þannig heildarskaðann sem hann veldur í samfélaginu.

Litakóðunarkerfinu er ekki ætlað að vera með beina tengingu við almannavarnastigin óvissustig, hættustig og neyðarstig sem viðbragðsaðilar munu áfram vinna eftir. Í stað þess er kerfinu komið á fyrir almenning.

Hægt að gefa út sérstaka viðvörun fyrir einstaka sveitarfélög eða stofnanir

Vísir greindi frá því að í undirbúningsskýrslu almannavarna og landlæknis um litakóðunarkerfið hafi komið fram að kerfinu væri ætlað að höfða til samfélagsins í heild og ábyrgðar einstaklinga.

Þá hafi verið tekin meðvituð ákvörðun um að notast ekki við grænan lit í lægsta áhættustigi þar sem reynsla frá Noregi hafi sýnt að slíkt geti sent þau skilaboð að fólki sé óhætt að slaka á og hverfa aftur til fyrri veruleika.

„Litakóðana má nota fyrir landið í heild, landsvæði og jafnvel sveitarfélög og stofnanir innan sveitarfélaga. Þannig getur t.d. ákveðið landsvæði starfað á rauðu um tíma vegna útbreiddra smita á meðan aðrir landshlutar eru í vægari lit. Það sama getur átt við skóla eða stofnun innan landsvæðis, þ.e. skóli verið á appelsínugulu þrátt fyrir a svæðið sé annars á gulum, en stofnun getur ekki verið á vægari lit en svæðið sem hún starfar á,“ kom fram í skýrslunni.

Kerfið verður kynnt nánar á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis á mánudag. 

Fréttin hefur verið uppfærð.