Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að koma til móts við bændur vegna verðhækkana á aðföngum um því sem nemur tæplega tveimur og hálfum milljarði króna.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, segir mikilvægt að stíga inn í og styðja við innlenda framleiðslu á matvælum þegar fæðuöryggi er ógnað.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Matvælaráðuneytinu.

Spretthópur sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi lagði tillögur sínar fyrir ríkisstjórnina í morgun.

Skýrsla hópsins fjallar um áhrif verðhækkana á ólíkar búgreinar, viðnámsþrótt þeirra, þróun á markaði það sem af er ári og líkleg áhrif þess ef stjórnvöld myndu ekkert aðhafast.

Miðað við þau gögn sem hópurinn hafði til úrvinnslu benda til að staða sauðfjárræktar og nautakjötsframleiðslu sé verst.

Tillögur spretthópsins eru í sex liðum fyrir árið og í fjórum þeirra er lagt til að greitt verði álag á ákveðnar greiðslur samkvæmt gildandi búvörusamningum, samtals 2.460 milljónir króna.

Auk þess er 450 milljónum ætlað til stuðnings svína-, alifugla-, og eggjaframleiðslu þar sem ekki er um búvörusamninga að ræða.

Í tillögunum er jafnframt lagt til að kjörafurðafyrirtækjum verði veitt tímabundin heimild til samstarfs með það að markmiði að hvetja til hagræðingar innan geirans.

Sú heimild yrðu bundin skilyrðum sem lagt er til að unnið sé í samráði við Samkeppniseftirlitið. Þá er einnig lagt til að komið verði á sérstökum vakthópi um fæðuöryggi.

Haft er eftir Svandísi að hún vonist til að aðgerðirnar stappi stálinu í bændur sem hafa glímt við versnandi afkomu á þessu ári og lengur.