Sveitar­stjórn Ár­nes­hrepps hefur sam­þykkt beiðni Vestur­verks ehf. um að gerð verði breyting á aðal­skipu­lagi vegna Hvalár­virkjunar. Þá var fyrirtækinu veitt heimild til að vinna til­lögu að deili­skipu­lagi vegna virkjunarinnar.

Liður í á­fram­haldandi fram­kvæmdum

Á fundi sveitar­stjórnarinnar þann níunda desember var lögð fram til­laga skipu­lags­nefndar hreppsins þar sem nefndin leggur til að skipu­lags­full­trúa verði falið að gera breytingar á Aðal­skipu­lagi hreppsins vegna Hvalár­virkjunar. Þá fær Vestur­verk heimild til þess að vinna til­lögu að breytingu á deili­skipu­lagi vegna virkjunarinnar.

Sam­þykktirnar eru liður í því að á­fram­haldandi fram­kvæmdum vegna virkjunarinnar, en þú þegar hafa vega­fram­kvæmdir vegna byggingarinnar verið hafnar.

Deilur um veginn

Tölu­verðar deilur hafa staðið um virkjunar­fram­kvæmdina seinustu ár og meðal annars fór hluti land­eig­enda jarðarinnar Selja­nes fram á að leyfi Vestur­verks til vega­bóta á þeim kafla vegarins sem liggur um jörðina yrði aftur­kallað. Samgönguráðuneytið hafnaði þeirri kröfu, en vega­bæturnar eru liður í byrjunar­fram­kvæmdum vegna virkjunarinnar.

Á fyrir­huguðu veg­stæði hafa fundist náttúru­minjar og stein­gervingar fundist, sem vernduð eru sam­kvæmt lögum. Vestur­verk hefur sagt að það muni færa veg­stæðið ef þess þurfi til að vernda minjarnar.

Hreppurinn klofinn

And­stæðingar virkjunarinnar hafa sagt að með henni sé verið að ganga á víð­erni, og hefur því meðal annars verið fleygt fram að raf­magnið sem frá henni kemur verði notað til þess að grafa eftir raf­myntum, en sá iðnaður er gríðar­lega orku­frekur.

Fylgj­endur virkjunarinnar hafa aftur á móti sagt að virkjunin sé nauð­syn­leg fyrir á­fram­haldandi bú­setu í hreppnum, en hún sé einnig mikil­væg fyrir Vest­firði. Stór hluti þeirrar raf­orku sem notuð er á Vest­fjörðum er fluttur inn í fjórðunginn, og raf­orku­truflanir á Vest­fjörðum komi að stórum hluta til vegna truflana á flutnings­línu raf­orku. Með til­komu virkjunarinnar muni af­hendingar­öryggi raf­orku á Vest­fjörðum því stór­batna.

Í seinustu sveitar­stjórnar­kosningum kaus rúm­lega helmingur hreppsins fólk sem hlynnt er virkjuninni. Íbúar hreppsins virðast því skiptast í tvær fylkingar þegar kemur að af­stöðu til virkjunarinnar. Þá er það lík­lega til marks um ó­sættið vegna virkjunarinnar að einungis hluti land­eig­enda að jörðinni Selja­nes hafa sett sig upp á móti veg­lagningunni um jörðina.

Það má því segja að fyrirhuguð Hvalárvirkjun hafi klofið þennan fámennasta hrepp landsins.