Yfirmenn almannavarna á Norðurlöndum komust á föstudaginn síðastliðinn að samkomulagi um að samstarf þeirra yrði aukið í takti við nýjar áherslur og áskoranir. Frá þessu var greint í fréttatilkynningu frá Almannavörnum í dag. Um er að ræða samkomulag sem samþykkt var af Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð í Kaupmannahöfn.

Í tilkynningunni er tekið fram að ákveðið hafi verið að auka samstarfið vegna breytts ástands í Evrópu og áhrifa vegna loftslagsbreytinga. Þetta sé gert í anda Haga-yfirlýsingarinnar. Samkvæmt Haga-samstarfinu funda norrænir ráðherrar sem fara með málefni almannavarna á hverju ári til að fara yfir stöðuna og marka eða árétta framtíðarstefnu sína.

Meðal nýjunganna sem upp úr samkomulaginu koma verður ný norræn almannavarnaskrifstofa (NORCIVCO) sem á að móta stefnu fyrir skammtíma- og langtímaverkefni. Þá verður stofnað sérstakt viðbragðsteymi fyrir málefni Úkraínu sem á að trygga landinu meiri og betri aðstoð. Jafnframt verður tryggt að Norðurlöndin haldi að minnsta kosti eina sameiginlega almannavarnaæfingu á hverju ári.