Sextán lyfjafyrirtæki og stofnun Bill og Melindu Gates munu í dag undirrita samning þar sem fyrirtækin samþykkja að hafa samvinnu um framleiðslu á bóluefni fyrir COVID-19 og hraða dreifingu þess á áður óþekktan hátt. Þá hafa lyfjafyrirtækin afsalað sér gróða af mögulegu bóluefni. Þetta segir auðkýfingurinn Bill Gates í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni fer Gates yfir stöðuna í dag, líklega mun öruggt bóluefni verða tilbúið snemma á næsta ári, hafa auðugri ríki heims tryggt sér rétt á að kaupa það. Til þess að útrýma sjúkdómnum þarf þrjá hluti, getu til að framleiða milljarða skammta af bóluefni, fjármagn til að greiða fyrir það og kerfi til að dreifa því.

Vitnar hann í líkön frá Northeastern-háskólanum í Boston um hvað muni gerast ef þjóðir með lágar og lægri meðaltekjur, þar sem nærri helmingur mannkyns býr, fá ekki bóluefni jafn hratt og auðugar þjóðir. „Í þessari atburðarás heldur veiran áfram að dreifast óhindruð í fjóra mánuði í þremur fjórðu hlutum heimsins og næstum tvöfalt fleiri látast.“ Slíkt yrði gífurlegur siðferðisbrestur að mati Gates.

„Í þessari atburðarás yrðum við öll eins og Ástralía og Nýja-Sjáland. Löng tímabil hafa liðið í báðum löndum með aðeins örfáum tilfellum innan landamæra, en efnahagur þeirra er enn lamaður vegna þess að viðskiptalönd þeirra eru lokuð. Stöku sinnum leggur svo nýr smitberi ​​leið sína yfir Suður-Kyrrahafið og veldur nýju hópsmiti sem breiðist út. Skólum og skrifstofum er lokað á ný.“

Í ljósi þess að ekki allir vilja láta bólusetja sig þá sé eina leiðin til að útrýma sjúkdómsógninni sé að gera það alls staðar.

Hér má lesa grein Gates í heild sinni.