Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, hefur skrifað undir beiðni bandarískra yfirvalda um framsal á Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.

Javid greindi frá þessu í viðtali í Today Programme, útvarpsþætti breska ríkisútvarpsins, en þar sagðist hann hafa skrifað undir beiðnina í gær. Breskir dómstólar munu á morgun taka endanlega ákvörðun um hvort Assange verði framseldur til Bandaríkjanna.

Þar hefur Assange, sem dvalið hefur í Belmarsh-fangelsinu í Lundúnum undanfarnar vikur, verið ákærður í átján liðum fyrir fjölda tölvuglæpa og birtingu trúnaðarupplýsinga.

Vinir og vandamenn Assange hafa lýst yfir áhyggjum vegna heilsu hans. Assange, sem er 47 ára, sá sér ekki fært að tjá sig þegar framsalsbeiðnin á hendu honum var tekin fyrir í síðasta mánuði sökum veikinda.

Viðbúið er að dómari í málinu muni heimsækja Belmarsh-fangelsið til að taka afstöðu til framsalsbeiðninnar á morgun sökum ástands Assange.

Frétt The Guardian um málið.