Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir COVAX-samstarfið skýrt dæmi um hvernig alþjóðakerfið nær vopnum sínum á ný eftir stórar krísur. Samtakamátturinn sé það ríkur að það skipti ekki endilega sköpum hvort þrjú efnahagsstórveldi heimsins, Bandaríkin, Rússland og Kína, séu með.

Sífellt hefur verið að bætast í hóp þeirra ríkja sem ákveðið hafa að taka þátt í COVAX, samstarfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem snýst um að fjármagna og dreifa bóluefni gegn COVID-19 þegar það verður tilbúið, sennilega á næsta ári.

Alls taka 165 lönd þátt, þar af 75 efnahagslega vel stæð ríki, sem standa hlutfallslega meira að kostnaðinum, sem metinn er tveir milljarðar Bandaríkjadala, eða tæplega 280 milljarðar íslenskra króna. Í gær var tilkynnt að Íslendingar og Norðmenn myndu greiða 967 milljónir króna í samstarfið. Evrópusambandið allt tekur þátt, sem og Bretland, Japan, Suður-Kórea, Brasilía, Kanada, Ísrael, Sádi-Arabía, Suður- Afríka og fleiri ríki.

Þeim ríkjum sem þurfa aðstoð er skipt í tvo flokka. Verst settu ríkin eru til dæmis stríðshrjáð ríki eins og Sýrland, Afganistan og Sómalía og síðan betur sett ríki eins og Indland, Indónesía og Úkraína.

Munu ríki fá bóluefnisskammta í hlutfalli við íbúafjölda, fyrir þrjú prósent íbúa til að byrja með, en síðar 20 prósent. Heilbrigðisstarfsfólk verður í forgangi og áhættuhópar þar á eftir. Koma á í veg fyrir að lönd liggi á miklum, ónotuðum birgðum á meðan önnur skorti bóluefni.

„Nú erum við að sjá sterkasta dæmi þess að alþjóðakerfið er að taka við sér og alþjóðasamvinna að komast á á nýjan leik, í stað kapphlaups milli þjóðríkja og heimsvelda,“ segir Eiríkur. En fram til þessa hafi „bóluefnis-þjóðerniskennd“ verið alls ráðandi. Ríki hafi sankað að sér ýmsum lækningaaðföngum og verðið rokið upp. „Í svona ástandi standa minni ríki höllum fæti og sér í lagi minni, fátæk ríki.“

Eiríkur segir þróunina í heimsfaraldrinum ekki einsdæmi. „Þegar krísur af þessum toga ríða yfir hverfa alþjóðastofnanir í skuggann af þjóðríkjunum. Ríkisvaldið tekur völdin og alþjóðakerfin hverfa nánast eins og dögg fyrir sólu,“ segir hann.

Þetta hafi til dæmis gerst í fjármálakrísunni árið 2008 og Evru­krísunni árið 2010. Í upphafi þeirrar síðarnefndu hafi hvert ríki reynt að bjarga sjálfu sér, en þegar leið á hafi Evrópusambandsríkin rétt hvert öðru hjálparhönd.

Í COVID-19 faraldrinum hafi þetta sést best á handahófskenndum og fumkenndum aðgerðum við lokun landamæra í fyrstu bylgjunni. Þar hafi alþjóðasambönd og stofnanir ekki verið sýnilegar.

Bandaríkin hafa slitið samband við WHO og taka því ekki þátt í COVAX. Samkvæmt þeirra eigin aðgerðum, Operation Warp Speed, munu allir Bandaríkjamenn fá bóluefni á undan öðrum þjóðum, verði Bandaríkjamenn fyrstir til að finna það upp. Gildir þá einu hvort fólk er í áhættuhópum eða ekki.

Eiríkur telur nær öruggt að Bandaríkjamenn gangi inn í COVAX vinni Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, Donald Trump í forsetakosningunum í nóvember.

„Forsetakjörið í Bandaríkjunum skiptir mjög miklu máli um akkúrat þetta mál,“ segir Eiríkur. Núna byggi Bandaríkin hins vegar á mjög sterkri þjóðernishyggju og hugsi fyrst og fremst um eigin hag, eins og Rússland og Kína, sem ekki hafa svarað því hvort þau taki þátt í samstarfinu.

„Jafnvel þó að Kínverjar séu ekki með í upphafi, þá eru hagsmunir landsins í alþjóðakerfinu miklu meiri en svo að þeir muni standa fyrir utan þegar til stykkisins kemur held ég,“ segir Eiríkur. „Það er engin ástæða fyrir Kína að taka ekki þátt í svona verkefni, út frá alþjóðlegum stjórnmálahagsmunum.“

Ómögulegt er að segja til um hvaða bóluefni verði fyrst komið í almenna dreifingu. 168 bóluefni eru núna í þróun og í COVAX-ríkjum eru 29 núna prófuð á mönnum.