„Það er mikill samtakamáttur í bænum, það vantar ekki. Nú ryðjumst við í það að hreinsa til og svo þarf að laga því það þarf að fara í ýmsar lagfæringar,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar en mikið tjón varð á trjám og gróðri víða í Fjarðabyggð í óveðrinu sem gekk yfir og víða liggja brotin tré í görðum og á opnum svæðum ásamt öðru braki.

Tryggingafélögin hafa sent fulltrúa austur til að meta tjón hjá sínum skjólstæðingum en samkvæmt Jóni er tiltektarverkefnið stórt og mun taka einhverja daga eða vikur að hreinsa til.

Bærinn hefur beðið íbúa að aðstoða sig að auðvelda aðgengi að ónýtum og brotnum trjám með því að búta þau niður eða auðvelda aðgengi að þeim sem mun flýta fyrir. Starfsmenn framkvæmdasviðs munu forgangsraða verkefnum og reyna sitt besta til að láta það ganga eins hratt og auðið er. „Þetta mun taka tíma en við erum byrjuð á þessari vegferð,“ segir Jón Björn.