Það eru rétt rúm tvö ár á milli systranna sem alltaf hafa verið samrýmdar. Það er jafnvel samhljómur á milli nafnanna en þær eru ávallt kallaðar Magga og Ragga.
„Við höfum verið mjög samstíga. Erum saman í barnauppeldi, saman í rólegheitum, vorum saman í ruglinu.“
Aðspurð hvað hún eigi við með ruglinu hlær Ragga og svarar: „Nei, ekkert rugl, bara temmilega mikið djamm á árum áður.“
„Ég fattaði fyrir nokkrum árum að ég er ekki lengur partískvísa þegar ég þurfti að endurnýja kreditkortið mitt sjálf,“ segir Magga. „En ekki af því það týndist eða datt í Tjörnina eða eitthvað. Það einfaldlega rann út af náttúrulegum orsökum.“
Talaði ekki fyrr en fjögurra ára
Ragga, sem er eldri, segist hafa tekið að sér að tala fyrir litlu systur sína þegar þær voru litlar.
„Það tók hana svakalegan tíma að byrja að tala. Mér skilst að hún hafi verið rannsökuð af læknum. Fólk hafði áhyggjur,“ segir hún alvarleg en Magga kemur sjálfri sér til varnar.
„Ég held ég hafi nú bara verið fjögurra ára.“
„Það tók hana svakalegan tíma að byrja að tala. Mér skilst að hún hafi verið rannsökuð af læknum. Fólk hafði áhyggjur."
-Ragga
„Ókei, en svo byrjaði hún að tala og þá var hún altalandi fullkomið mál, og nú gerir hún ekkert annað en að laga málfræði og stafsetningarvillur hjá fólki, mjög vinsæl. Magga gerir allt 150 prósent, sleppir því bara annars,“ segir Ragga og Magga bætir við:
„Ég held við leggjum okkur báðar alltaf jafn mikið fram við allt sem við gerum, en ég hefði aldrei getað þagað svona lengi án Röggu.“
„Þetta viðtal gæti verið sálfræðitími. Við erum að fara djúpt,“ segir Ragga og hlær.
„Þetta viðtal gæti verið sálfræðitími. Við erum að fara djúpt."
-Ragga
Magga segir Röggu hafa leyft henni að leika með stóru stelpunum á yngri árum.
„Mér var oft troðið i barnavagn og gefin ýmis heimagerð lyf.“
„Oftast var það nú bara sítrónusafi og sykur eða eitthvað. Minnir mig,“ segir Ragga.
Rjómakaffi sameinaði þær
Það var svo í fjölskylduferð til London þegar systurnar voru þrettán og fimmtán ára að þær smullu endanlega saman yfir sameiginlegri ást sinni á rjómakaffi. Upp frá því hafa þær verið nánast óaðskiljanlegar, þar til Ragga flutti norður fyrir tveimur árum en hún býr í Svarfaðardal ásamt fjölskyldu sinni og líkar vel.
„Ég hef aldrei verið betri. Alger lúxus. Umferðarteppa er orðin að fjarlægri minningu. Svo er ég mjög hrifin af Dalvíkingum og Svarfdælingum, og Norðlendingum i heildina.“
„Ég hef aldrei verið betri. Alger lúxus. Umferðarteppa er orðin að fjarlægri minningu. Svo er ég mjög hrifin af Dalvíkingum og Svarfdælingum, og Norðlendingum i heildina.“
-Ragga

Magga býr í Vesturbænum með dóttur sinni, plumar sig vel þar enda elskar hún að vera úti með trefil að dreypa á matchalatte. Nú þegar systurnar búa sín í hvorum landshlutanum tala þær saman í síma hálfan daginn að eigin sögn enda vinna þær mikið að sameiginlegum verkefnum.
Listin kom með móðurmjólkinni
Ragnhildur starfar sem myndlistarmaður auk þess að skrifa greinar í Heimildina undir formerkjum Hillbilly-systra ásamt Möggu.
„Mér finnst mjög gaman að skrifa. Grunar að ég sé líka tónlistarmaður ef ég þyrði því eða gæfi mér tíma til að athuga það,“ segir hún í léttum tón.
Margrét er grafískur hönnuður og Pilates- og jógakennari en þær eiga ekki langt að sækja listhneigðina, móðir þeirra er Ragnhildur Stefánsdóttir myndlistarmaður og myndhöggvari og faðir þeirra Friðrik Örn Weisshappel er smiður.
Systurnar fóru á myndlistarsýningar, danssýningar og óperur frá fæðingu, fengu allt saman með móðurmjólkinni.
„Ég gerði aldrei greinarmun á listasýningu eða að fara og kaupa ryksugu með foreldrum okkar, mér fannst bæði gaman,“ segir Ragga.

„Í uppeldinu fóru þau ekki hefðbundnar leiðir, ef það er til eitthvað sem heitir hefðbundið uppeldi. Til dæmis þá var okkur aldrei bannað neitt. Þau hvöttu okkur alltaf til að horfa á hlutina með gagnrýnum hug, í stað þess að banna okkur,“ segir Magga og Ragga bætir við:
„Okkur hefur alltaf verið leyft að gera okkar mistök – og við höfum gert nóg af þeim. Eftir á að hyggja hefði ég viljað að einhver talaði mig til, en ég veit líka að það hefði ekkert virkað,“ segir Ragga.
„Allt var rætt og er það enn þá, og það eru alltaf lausnir á öllu, það er það helsta sem ég tek úr uppeldinu. Allt er mögulegt.“
Magga: „Þau dæmdu okkur líka aldrei, og gera ekki. Svo við gátum alltaf sagt þeim allt. Við Ragga setjum mikinn fókus á þetta í uppeldinu á okkar börnum, að hemja okkur ef við ætlum að rúlla augunum eða eitthvað.“
„Þau dæmdu okkur líka aldrei, og gera ekki. Svo við gátum alltaf sagt þeim allt. Við Ragga setjum mikinn fókus á þetta í uppeldinu á okkar börnum, að hemja okkur ef við ætlum að rúlla augunum eða eitthvað.“
-Magga
Ala börnin upp í sameiningu
Systurnar eiga samtals þrjú börn og tala alltaf um „okkar börn“, enda segjast þær vita að móðursystir og mamma eru bæði jafn ótrúlega mikilvæg hlutverk í lífi barna.
Ragga: „Annað mikilvægt sem ég tók úr uppeldinu, sem hefur reynst mér vel og ber áfram til barnanna okkar þriggja, er að vera aldrei í fórnarlambshlutverki.
Ég man svo eftir þegar mamma var að predika þetta á snemm-unglingsárum okkar Möggu, og ég skildi það ekki alveg en það hefur sannarlega smogið inn í fínustu háræðar lífs míns, og er það svo frelsandi að líta aldrei á sig sem fórnarlamb eins né neins. Ekkert í lífinu er skylda.“
Magga: „Sammála. Ekkert væl. Það má gráta og jafnvel öskra, en ekki væla.“
„Sammála. Ekkert væl. Það má gráta og jafnvel öskra, en ekki væla.
-Magga
Síamstvíburinn Hús og Hillbilly
En að vefritinu Hús og Hillbilly sem systurnar settu í loftið árið 2016. Þar birta þær viðtöl við listamenn sem þær hugsuðu sem viðbót í arkív-flóruna um samtímalist.
„Hillbilly byrjaði þannig að við fórum á vinnustofur listamanna og tókum tímalaust viðtal og góðar myndir,“ segja þær en nú skrifa þær reglulega í Heimildina, eins sér Ragga um gallerí Á, í svarfdælska fréttamiðlinum Norðurslóð.
Nafnið Hús og Hillbilly er eins og einhverja kann að gruna byggt á tímaritinu Hús og híbýli.
„Við sátum oft á Te og kaffi og lásum myndlistar-, tísku- og hönnunarblöð á árum áður og David, franskur maður Röggu, kallaði blöðin eins og þau lögðu sig Hús og Hillbilly,“ rifjar Magga upp og hlær.
„Við sátum oft á Te og kaffi og lásum myndlistar-, tísku- og hönnunarblöð á árum áður og David, franskur maður Röggu, kallaði blöðin eins og þau lögðu sig Hús og Hillbilly."
-Magga

„Hillbilly er við saman. Loftið á milli okkar. Stundum köllum við hana síamstvíburann okkar. Við tölum alltaf um hana í þriðju persónu, og hún tekur viðtölin fyrir okkur. Þar til nú, í Opnun II í sjónvarpinu, þá erum það við Ragga og Magga sem tökum viðtölin. En við gleymum ekki öllu því sem Hillbilly hefur kennt okkur,“ segir Ragga.
Vinna að halda andlitinu kyrru
Að taka viðtöl var þannig engin nýlunda fyrir systrunum þegar Gaukur Úlfarsson bað þær um að hafa umsjón með sjónvarpsþættinum Opnun II en þær viðurkenna að myndavélarnar hafi vissulega verið ný áskorun.
„Sko, ég var í fullri vinnu við að halda andlitinu á mér eðlilegu. Ég er stöðugt að gera einhverja svipi. Ég þyrfti að láta líta á þetta. Ég horfi markvisst framan í annað fólk til að athuga hvort aðrir séu svona, en fólk er upp til hópa eðlilegt og kjurrt í framan.
Ég hins vegar þarf að gera mitt allra besta til að halda andlitinu kjurru. Svo virðist ég vera haldin þráhyggju fyrir að fikta í andlitinu á mér eða hárinu,“ segir Ragga og systir hennar bætir við:
„Það var mjög fyndið þegar Ragga spurði einn tökumanninn hvort hún ætti að gera eitthvað öðruvísi og hann svaraði: „Kannski fikta aðeins minna í nefinu á þér.“
Ragga: „Sjarmerandi sjónvarpsefni.“
„Sko, ég var í fullri vinnu við að halda andlitinu á mér eðlilegu. Ég er stöðugt að gera einhverja svipi. Ég þyrfti að láta líta á þetta."
-Ragga


Völdu tólf listamenn
Þær eru sammála um að ferlið hafi verið áhugavert og skemmtilegt en það hafi þó reynt á taugakerfið.
„Tímasetningar og sjónvarpsbransinn eru víst oft að vega salt. Við Magga erum þó þaulvanar að púsla alls konar bútum saman í lífinu, eins og aðrar ofvirkar húsmæður.
En það var gott að finna að allir sýna ferlinu skilning enda fagmenn í öllum hornum. Sigurður Atli og Olga Lilja, sem reka Y gallerí, voru með okkur alla leið,“ segir Ragga en að loknum síðasta þætti verður opnuð þar samsýning þeirra listamanna sem teknir voru tali í þáttunum.
„Opnun II fer í línulega dagskrá 23. mars. Línuleg dagskrá er eina haldreipið sem við höfum í nútímasamfélagi,“ segir hún ákveðin.
„Opnun II fer í línulega dagskrá 23. mars. Línuleg dagskrá er eina haldreipið sem við höfum í nútímasamfélagi."
-Ragga
Systurnar völdu tólf listamenn sem teknir eru tali í þáttunum og segja þær þá alla eiga stað í hjörtum þeirra. Þann 6. maí verður svo opnuð sýning á verkum þeirra í Y gallerí sem er staðsett í gömlu Olís-bensínstöðinni undir Hamraborg í Kópavogi.
„Mér líður eins og við séum að velja fallegar perlur og steina á ströndinni, þegar við skoðum verk listamannanna og veljum, í samtali við þá, gaumgæfilega verk inn á samsýninguna,“ segir Ragga en þeir listamenn sem teknir eru tali eru: Kristján Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Pétur Magnússon, Páll Haukur Björnsson, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Ragna Róberts, Rakel McMahon, Birgir Snæbjörn Birgisson, Melanie Ubaldo, Erla Þórarinsdóttir og Sigurður Guðjónsson.
„Mér líður eins og við séum að velja fallegar perlur og steina á ströndinni, þegar við skoðum verk listamannanna og veljum, í samtali við þá, gaumgæfilega verk inn á samsýninguna."
-Ragga
„Þetta er unaðsleg blanda listamanna, og þar af leiðandi listaverka á sýningunni; náttúra, drama, gleði og dass af töfrum. Allt það besta í frekar litlu rými,“ segir Ragga.
„Við erum mjög þakklátar fyrir að fá að gera þennan þátt og stoltar af Hillbilly sem vex og dafnar og fer í gegnum metamorfósis reglulega,” segir Magga að lokum.