Viðreisn hefur ákveðið að fara fram með eigin lista í sveitarstjórnarkosningunum 2022 og þar af leiðandi ljúka samstarfi sínu með Garðarbæjarlistanum.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu Garðabæjarlistans og Viðreisnar.

Fram kemur að samstarfið hafi gengið vel, bæði meðal bæjarfulltrúa og nefndarmanna Garðabæjarlistans. Á aðalfundi Garðabæjarlistans í kvöld tjáðu fulltrúar Viðreisnar að þeir ætluðu úr samstarfinu og fara fram með eigin lista í næstu kosningum.

Garðabæjarlistinn var stofnaður í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga með aðkomu félagsmanna úr Samfylkingunni, Vinstri græn, Viðreisn, Bjartri framtíð, Pírötum og óháðum aðilum.

Sara Dögg Svanhildardóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar, hefur sent út yfirlýsingu þess efnis að hún sækist eftir því að leiða lista Viðreisnar.

„Ég tók að mér að leiða Garðabæjarlistann fyrir síðustu kosningar og hef verið fulltrúi Viðreisnar í því samstarfi allt þetta kjörtímabil. Það er verk að vinna og því sækist ég eftir því að leiða lista Viðreisnar í Garðabæ og gef þannig áfram kost á mér til góðra verka í bæjarstjórn Garðabæjar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022,“ segir Sara Dögg í yfirlýsingu sinni.

Greint var frá því fyrr í kvöld að Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar til sautján ára, hygðist segja af sér í lok tímabilsins.