Á öllum skólastigum er litið á foreldra sem mikilvæga samstarfsaðila, tekið vel á móti ábendingum þeirra varðandi skólastarfið og unnið úr þeim með skipulegum og lausnamiðuðum hætti, samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á geðrækt í skólum en skýrsla Embættis landlæknis um könnunina kom út í gær. Eingöngu er átt við foreldra nemenda undir 18 ára aldri.

Aftur á móti er afar sjaldgæft á öllum skólastigum að foreldrar taki virkan þátt í mótun stefnu og aðgerða innan skólans á sviði hegðunar, félags- og tilfinningafærni og nokkur misbrestur er á því í grunn- og framhaldsskólum að foreldrar séu upplýstir um mikilvæg atriði eins og niðurstöður kannana á líðan og skólabrag og verklag í sambandi við stuðning við nemendur.


Könnunin leiðir einnig í ljós mikinn mun eftir skólastigum þegar kemur að virku samstarfi og samskiptum við foreldra. Í nánast öllum leik- og grunnskólum eru haldin regluleg foreldrasamtöl um nám, líðan og félagslega stöðu barnanna í skólanum en þetta á aðeins við um 40% framhaldsskóla.


Þegar spurt er hvort skólinn leggi sig sérstaklega fram um að ná til foreldra nemenda sem búa á einhvern hátt við jaðarsetta stöðu er því svarað játandi í 40% leik- og grunnskóla á móti 20% framhaldsskóla.


Mun færri svarendur í framhaldsskólum segja einnig áherslu lagða á að hafa strax samband við foreldra ef áhyggjur vakna af líðan eða velferð nemenda undir 18 ára aldri. Í nánast öllum leik- og grunnskólum er þessu svarað játandi en aðeins í 67% framhaldsskóla. Eins fær starfsfólk í framhaldsskólum mun minni stuðning og ráðgjöf frá stjórnendum og samstarfsfólki varðandi farsælt samstarf við foreldra.

Nordicphotos/Getty

Jafnrétti og virk þáttaka

Í grunnskólum er staðan yfirleitt góð hvað varðar jafnrétti og virka þátttöku nemenda en þó er hlutfall skóla, þar sem nemendur fá val um viðfangsefni, námsaðferðir og námsaðstæður eins og kostur er, lægst á því skólastigi. Þetta er talið mikilvægt þegar kemur að sjálfræði nemenda og snertir velferð þeirra í námi.


Eins er sjaldgæfara í grunnskólum en leikskólum að allir fái verkefni og kennslu sem hæfir getu þeirra og að fjölbreyttar aðferðir séu nýttar við kennslu. Nemendalýðræði er þó meira í grunnskólum en leikskólum og sömuleiðis stóðu grunnskólar vel þegar kom að jafnréttiskennslu og tilliti til einstaklingsbundinna þarfa nemenda.

Framhaldsskólar standa leik- og grunnskólum að baki


Framhaldsskólar standa bæði leik- og grunnskólum að baki þegar kom að gagnasöfnun um líðan og hagi nemenda, en 70% framhaldsskóla leggja fyrir árlegar nemendakannanir til að meta líðan og skólabrag á móti yfir 90% grunnskóla.

Þegar kemur að því að safna gögnum um skólabrag, líðan og félagstengsl nemenda er staðan langbest í grunnskólum en nánast allir grunnskólar í könnuninni leggja fyrir árlegar nemendakannanir, rúmlega tveir af hverjum þremur leggja einnig fyrir foreldrakannanir og nærri þrír af fjórum framkvæmdu tengslakannanir til að bregðast við merkjum um félagslega einangrun eða útilokun meðal nemenda.


Samkvæmt skýrslunni þarf að tryggja mun betur en gert er í dag að nemendur á öllum skólastigum fái þann stuðning sem þeir þurfa vegna erfiðleika á sviði hegðunar, líðanar og félagsfærni, og að starfsfólk í skólum fái þann stuðning sem þarf til að sinna hegðun, líðan og samskiptum barna og ungmenna með farsælum hætti.