Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 200 manns og upp í 500 manns. Opnunartími skemmtistaða lengist um klukkutíma, skemmtistaðir þurfa að loka fyrir gesti á miðnætti og allir farnir út klukkan 1:00. Breytingarnar taka gildi á miðnætti í kvöld.

Sérstakt ákvæði sóttvarnarreglna mun heimila samkomur fyrir 1.500 manns með notkun hraðprófa, er það sérstaklega hugsað fyrir skólaböll. Framhaldsskólanemar hafa kvartað sáran yfir að hafa ekki getað farið á ball.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði að loknum ríkisstjórnarfundi að samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um nýju reglurnar.

Engar breytingar verða gerðar á landamærunum og fjarlægðartakmörk verða óbreytt. Grímuskylda, til dæmis hjá hárgreiðslustofum, verður óbreytt.

Síðasta reglugerðin fyrir kosningar

Hraðprófin verða frí. „Við munum borga þau niður og ef að einkaaðilar eru að innheimta meira þá greiðum við það jafn mikið niður og hjá heilsugæslunni,“ segir Svandís við Fréttablaðið.

Hún er bjartsýn á framhaldið næstu vikur. „Við förum þessi rólegu skref. Þetta er sérstakur tími, þessi reglugerð sem tekur gildi á miðnætti fellur úr gildi eftir kosningar og þá erum við komin í annað umhverfi. En það gilda áfram sóttvarnarlög og sóttvarnarlæknir mun gera aðrar tillögur í aðdraganda breytinganna.“