Fjórir létust í gær þegar tvær þyrlur rákust saman við strand­lengju nærri Sea World í bænum Gold Coast í suður­hluta Ástralíu. Þrettán manns voru í báðum þyrlunum og eru þrír einnig sagðir vera al­var­lega slasaðir.

Lög­reglan í Ástralíu segir að á­reksturinn hafi átt sér stað rúm­lega 20 sekúndum eftir flug­tak og að allir þeir sem létust í slysinu hefðu verið far­þegar í þyrlunni sem var að taka á loft.

Andri Jóhannes­son, þyrlu­flug­maður, segir lík­legustu skýringuna á slysinu vera at­hugunar­leysi og að flug­mennirnir hafi ein­fald­lega ekki séð hvorn annan.

„Að öllum líkindum hefur sólin bara blindað þann sem var að lenda rétt fyrir á­reksturinn“

„Þessar þyrlur sem skullu saman voru ferða­manna­þyrlur sem eru lík­lega bara notaðar í sjón­flug. Ég held að þetta voru bara mann­leg mis­tök frekar en mis­tök hjá flug­turni. Að öllum líkindum hefur sólin bara blindað þann sem var að lenda rétt fyrir á­reksturinn,“ segir Andri.

Hann segir að sam­skipta­leysi hafi að öllum líkindum einnig spilað stóran þátt í slysinu. „Þeir lenda þarna við ár­bakka rétt eins og ferða­manna­þyrlur gera þegar þær lenda við bryggjuna í New York og láta svo kannski bara vita af lendingunni í tal­stöð eftir að þeir eru lentir.“

Andri bætir við að þegar flogið er inn í flug­stjórnar­svið Reykja­víkur­flug­vallar þá sér flug­turninn um að passa upp á það að flug­menn fljúgi ekki of ná­lægt hvor öðrum, en að svipaðar reglu­gerðir hafi ekki endi­lega verið til staðar á slysstað.

Frá vettvangi.
Fréttablaðið/EPA