Fjórir létust í gær þegar tvær þyrlur rákust saman við strandlengju nærri Sea World í bænum Gold Coast í suðurhluta Ástralíu. Þrettán manns voru í báðum þyrlunum og eru þrír einnig sagðir vera alvarlega slasaðir.
Lögreglan í Ástralíu segir að áreksturinn hafi átt sér stað rúmlega 20 sekúndum eftir flugtak og að allir þeir sem létust í slysinu hefðu verið farþegar í þyrlunni sem var að taka á loft.
Andri Jóhannesson, þyrluflugmaður, segir líklegustu skýringuna á slysinu vera athugunarleysi og að flugmennirnir hafi einfaldlega ekki séð hvorn annan.
„Að öllum líkindum hefur sólin bara blindað þann sem var að lenda rétt fyrir áreksturinn“
„Þessar þyrlur sem skullu saman voru ferðamannaþyrlur sem eru líklega bara notaðar í sjónflug. Ég held að þetta voru bara mannleg mistök frekar en mistök hjá flugturni. Að öllum líkindum hefur sólin bara blindað þann sem var að lenda rétt fyrir áreksturinn,“ segir Andri.
Hann segir að samskiptaleysi hafi að öllum líkindum einnig spilað stóran þátt í slysinu. „Þeir lenda þarna við árbakka rétt eins og ferðamannaþyrlur gera þegar þær lenda við bryggjuna í New York og láta svo kannski bara vita af lendingunni í talstöð eftir að þeir eru lentir.“
Andri bætir við að þegar flogið er inn í flugstjórnarsvið Reykjavíkurflugvallar þá sér flugturninn um að passa upp á það að flugmenn fljúgi ekki of nálægt hvor öðrum, en að svipaðar reglugerðir hafi ekki endilega verið til staðar á slysstað.
