Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son, hæsta­réttar­lög­maður, segir það ó­tækt að Davíð Þór Björg­vins­son, vara­for­seti Lands­réttar og fyrr­verandi dómari við Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu sé að tjá sig um ný­fallinn dóm yfir­deildar MDE, án þess að taka það fram að hann hafi verið hluti af mál­flutningsteymi ís­lenska ríkisins.

Vil­hjálmur var verjandi Guð­mundar Andra Ást­ráðs­sonar og flutti mál hans fyrir MDE þar sem að allir sautján dómarar yfirdeildar MDE komust að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð.

„Mér finnst það ó­tækt án þess að hann upp­lýsi í leiðinni að hann hafi verið að gæta hags­muni ís­lenska ríkisins í málinu og þegið fyrir það háar greiðslur,“ segir Vil­hjálmur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Davíð Þór skrifaði í gær pistil á vef­síðu sinni þar sem hann sagði dóm yfir­deildar MDE leysa úr réttar­ó­vissu hér­lendis og sagði að Lands­réttur þyrfti ekki að fara í neinar sér­stakar ráð­stafanir vegna dómsins.

Slík þátttaka dómara getur orkað tvímælis

Davíð Þór var hluti af mál­flutningsteymi ís­lenska ríkisins þegar málið var flutt fyrir neðri deild dómsins og fékk fyrir ráð­gjöf sína hátt í tvær milljónir króna fyrir.

Vil­hjálmur bendir á í þessu sam­hengi á dóm Hæsta­réttar frá júní 2019 þar sem Hæsti­réttur gerðu at­huga­semdir við fram­göngu Davíðs.

Í dómi Hæsta­réttar er tekið fram að Davíð Þór hafi lagt af mörkum vinnu við undir­búning varna í þágu ís­lenska ríkisins vegna málsins og þegið greiðslu fyrir.

„Í málinu hefur varnar­aðili sem fyrr segir skír­skotað til ýmissa um­mæla Davíðs Þórs Björg­vins­sonar á opin­berum vett­vangi, sem fjöl­miðlar hafa haft eftir honum og varðað hafa á einn eða annan hátt mál (..) við Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu eða af­leiðingar dóms, sem féll í því 12. mars 2019. Þó svo að um­mæli þessi hafi að nokkru verið við­höfð á fræði­legum vett­vangi er slík þátt­taka dómara í al­mennri um­ræðu að sönnu ó­venju­leg og getur orkað tví­mælis hvort hún sé sam­rýman­leg starfi hans,“ segir í dómi Hæsta­réttar frá júní 2019.

„Og nú ríður hann fram á rit­völlinn á nýjan leik og hann virðist ekki hafa hlustað á þessar at­huga­semdir sem Hæsti­réttur gerði á að hann væri að tjá sig með þessum hætti. Sem sam­ræmast á engan hátt stöðu hans sem dómari við Lands­rétt og vara­for­seti Lands­réttar,“ segir Vil­hjálmur.

„Hann kom að samningu greinar­gerðar ís­lenska ríkisins í undir­deildinni,“ segir hann og bætir við að tvær milljónir er há upphæð. „Til að setja það í sam­hengi þá fékk ég 20.000 evrur til að reka allt málið á báðum dóm­stigum með ferðum til Strass­borgar og út­lögðum kostnaði,“ segir Vil­hjálmur.

Hann segir að lokum að Davíð sé full­kom­lega van­hæfur til að þess að tjá sig um málið undir því yfir­skini að hann sé dómari við Lands­rétt og fyrr­verandi dómari við Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu. Þar sem hann er ekkert annað en hluti af mál­flutningsteymi ríkisins.