„Já, og málin eru bara í vinnslu,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort samræmd próf verði haldin í haust.

„Samræmd próf eru í endurskoðun á vegum ráðuneytisins og Menntamálastofnunar,“ segir Þorsteinn, en nú liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á samræmdu prófunum. Með þessu sé verið að vinna í að nútímavæða prófin.

„Það má segja að við síðustu tvær samræmdu próftökur hafi ýmislegt farið úrskeiðis og þá var ákveðið að endurskoða prófafyrirkomulagið,“ segir Þorsteinn og telur að það sé ánægja hjá skólafólki með þá ákvörðun.