Ríkisstjórnin kom saman til fundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun. Fréttablaðið náði tali af nokkrum samráðherrum Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra fyrir fundinn vegna umdeildrar skipanar Lilju í stöðu þjóðminjavarðar án auglýsingar. Sumir ráðherranna vildu ekkert tjá sig. Aðrir sögðust ekki hafa kynnt sér málið nægilega.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að hann hefði aldrei skipað hátt settan embættismann í stofnun með tilfærslu innan kerfis án þess að auglýsa stöðu líkt og Lilja nýtti sér með vísan í 36. grein starfsmannalaga.

Ásmundur Einar Daðason ráðherra mennta- og barnamálaráðherra sagðist sjálfur hafa farið sömu leið og Lilja. Hann hefði beitt 36. greininni til að færa til embættismenn án auglýsingar. Hann sagðist ekki sjá neitt athugavert við ákvörðun Lilju.

Sumir ráðherranna nefndu að ákvörðun Lilju væri lögleg, þar sem heimild væri í lögum fyrir tilfærslunni. Fæstir vildu þó tjá sig efnislega um hvort undanþáguákvæðið ætti við í þessu tilviki, en bent hefur verið á að það hafi verið hugsað til að brúa bil tímabundið eða flytja lægri setta til, svo sem bílstjóra ráðherra þegar þeir færast milli ráðuneyta en ekki embætti þjóðminjavarðar.

Þrír af fjórum síðustu ráðuneytisstjórum hafa undanfarið verið skipaðir án auglýsingar með vísan í 36. greinina. Grundvallarkerfisbreyting er í uppsiglingu á kostnað gagnsæis, jafnræði og sanngirni að sögn Hauks Arnþórssonar stjórnsýslufræðings. Haukur segir skipan þjóðminjavarðar afturhvarf til fortíðar þar sem geðþótti og persónulegar ákvarðanir ráðherra stýri handvali.

Haukur telur skipan Lilju brot á stjórnsýslulögum og bjóða hættu heim um endalausa starfslokasamninga að amerískum hætti þegar ráðherrar hætta störfum eftir að hafa skipað fólk að geðþótta. Innan safnaheimsins hefur framáfólk lýst mikilli hneykslan á ákvörðun Lilju að veita ekki umsækjendum jafnan rétt til að keppa stöðuna, enda sé um eitt áhrifamesta mennningarembætti þjóðarinnar að ræða.

Í ályktunum hefur ítrekað komið fram að með gagnrýninni sé ekki kastað rýrð á störf eða persónu Hörpu Þórsdóttur, sem Lilja skipaði þjóðminjavörð, áður sanfnstjóra Listasafns Íslands heldur beinist gagnrýnin að stjórnsýslu Lilju.