Ákvörðun Íslandsstofu og Ríkiskaupa um að semja við bresku auglýsingastofuna M&C Saatchi Ltd. verður ekki felld úr gildi. Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála vegna kæru auglýsingastofunnar Pipars Media ehf.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í maí var tilboð M&C Saatchi metið best í útboði Ríkiskaupa vegna landkynningarverkefnis Íslandsstofu sem nefnt er „Ísland saman í sókn“. Íslenska auglýsingastofan Pipar lenti í öðru sæti.

„Mín per­sónu­lega skoðun á þessu er að þetta voru gríðar­leg von­brigði,“ sagði María Hrund Marinós­dóttir, for­maður Í­MARK, við Fréttablaðið 13. maí síðastliðinn þegar ljóst var að Ís­lands­stofa hygðist semja við er­lenda aug­lýsinga­stofu um 1,5 milljarða króna markaðs­á­tak til að styrkja í­mynd Íslands sem á­fanga­staðar fyrir ferðamenn. Sex dögum síðar kærði Pipar niðurstöðuna og krafðist þess að Íslandsstofu og Ríkiskaupum yrði gert að semja í staðinn við Pipar. Gengið var frá samningi við M&C Saatchi Ltd. 25. júlí.

Að því er segir í umfjöllun kærunefndarinnar byggði Pipar kæru sína á að skila hefði átt inn tilboðum með virðisaukaskatti. M&C Saatchi Ltd. sé erlent fyrirtæki sem sé ekki virðisaukaskattskylt á Íslandi. Því hafi jafnræði bjóðenda verið raskað í útboðinu. Einnig hafi breska fjármálaeftirlitið hafið rannsókn á M&C Saatchi Ltd. vegna bókhaldsbrota og megi ráða af fréttum að stjórnendur fyrirtækisins hafi viðurkennt að rangfærslur í bókhaldi gætu náð mörg ár aftur í tímann. Því geti fyrirtækið ekki verið gjaldgengt í útboðum. M&C Saatchi Ltd. hafi skilað röngum ársreikningi fyrir árið 2018 í hinu kærða útboði sem leiða ætti til þess að tilboði félagsins yrði hafnað.

Íslandsstofa og Ríkiskaup sögðu á hinn bóginn að tilboðin væru samanburðarhæf og jafnræði hefði verið með bjóðendum. „Hafi varnaraðili Ríkiskaup kannað hvort ástæða væri til að útiloka fyrirtækið frá þátttöku í útboðinu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um bókhaldsbrot þess, en innsend gögn hafi ekki bent til þess að það bæri að gera,“ segir kærunefndin.

„Þar sem fyrir liggur bindandi samningur milli varnaraðila Íslandsstofu og M&C Saatchi Ltd. hefur kærunefnd útboðsmála ekki heimild til þess að fallast á fyrrgreindar kröfur kæranda,“ segir kærunefndin. Þá geti nefndin skyldað kaupanda til að ganga til samninga á grundvelli útboðs. „Þegar af þessum sökum er óhjákvæmilegt að hafna kröfum kæranda.“