Þingflokkar hafa loksins náð saman um þinglok og stefnt er að því að þingstörfum ljúki snemma í næstu viku. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Í gærkvöldi strandaði aðeins á þingmannamáli Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna en meirihlutinn vildi ekki að málið færi til atkvæðagreiðslu heldur að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Stjórnarmeirihlutinn gaf sig hins vegar og mál Pírata fer væntanlega til atkvæðagreiðslu í þinginu á mánudag.

Þegar Píratar hófu málþóf vegna fíkniefnamálsins í gær höfðu Miðflokksmenn verið í málþófi í nokkra daga vegna frumvarps um stofnun opinbers hlutafélags um samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu. Frekara málþófi vegna óánægju með borgarlínu var afstýrt síðdegis í gær með samkomulagi um að fjárlaganefnd afgreiði sérstakt framhaldsnefndarálit um frumvarp tengt borgarlínu þar sem komið er til móts við sjónarmið Miðflokksins.

Sendiherramáli frestað til hausts

Samkvæmt samkomulagi verður afgreiðslu frumvarps um skipun sendiherra, sem mætt hefur mikilli andstöðu bæði stjórnarandstöðu og umsagnaraðila, frestað fram á haust. Þá er unnið að nokkrum breytingum á umdeildu samkeppnislagafrumvarpi til að liðka fyrir samningum um þinglok.

Venju samkvæmt er stefnt að lokaafgreiðslu nokkurra þingmannamála við þinglok. Þar á meðal eru mál Viðreisnar um gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu, mál Miðflokksins um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir, tillaga um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi sem Samfylkingin lagði fram og frumvarp Flokks fólksins um vísitölutengingu bóta almannatrygginga. Sem fyrr segir leggja Píratar áherslu á fyrrnefnt frumvarp um afnám refsinga fyrir fíkniefnavörslur.