Búið er að semja við eigendur húsa við Einimel varðandi kaup á hluta borgarlands af svokölluðu Sundlaugartúni, vestan við Vesturbæjarlaugina. Málið hefur valdið miklum titringi og Reykjavíkurborg sökuð um að gefa eftir.
Verða lóðir Einimels 18, 24 og 26 færðar út um rúma 3 metra og heimilt að stækka lóð Einimels 26 lítillega til norðurs. Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu rífa niður girðingar sem reistar voru fyrir mörgum áratugum síðan.
Samkvæmt Pawel Bartoszek borgarfulltrúa á borgarráð eftir að taka samningana fyrir, en kaupverðið sé metið út frá hefðbundnu fermetraverði garðs í þessu hverfi.
Teitur Atlason, sem sagði af sér stöðu varaborgarfulltrúa Samfylkingar vegna málsins, segist vonsvikinn með lyktir þess. „Þetta ríka fólk sölsaði undir sig þetta svæði án þess að spyrja kóng eða prest,“ segir hann. „Almenningur er oft í stappi við skipulagsyfirvöld og það er ekki gefin eftir ein tomma, nema ef þú átt pening.“