Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar, samninganefnd Herjólfs og Vegagerðin eru búin að ná samkomulagi um grundvöllinn sem nýr samningur aðilanna á milli verður byggður á til næstu þriggja ára.

Samninganefnd Herjólfs fundaði með bæjarfulltrúum Vestmannaeyjabæjar fyrir tveimur vikum þar sem farið var yfir stöðuna og atriðin sem liggja til grundvallar í nýjum samningi um áframhaldandi rekstur Herjólfs.

Í haust samþykkti bæjarstjórnin að endurskoða þjónustusamninginn við Vegagerðina um ferjusiglingar til Vestmannaeyja og hafa viðræður staðið yfir undanfarna mánuði. Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í vikunni var ákveðið að ljúka samningaviðræðunum við Vegagerðina á þeim forsendum sem kynntar voru bæjarfulltrúum. Endanlegur samningur verður svo lagður fyrir bæjarstjórn.