Samninga­maður hjá lög­reglunni var með í för í gær­ þegar hún var kölluð til vegna manns í annar­legu á­standi með egg­vopn við fjöl­býlis­hús á Reka­granda í gær. Maðurinn var berjandi á hurðir ná­granna og með hótanir og tókst samninga­manni lög­reglunnar að tala manninn niður eftir „langar við­ræður“ sam­kvæmt dag­bók lög­reglu.

Íbúi sem Frétta­blaðið ræddi við í gær segir manninn hafa bankað á dyr íbúa og verið vopnaður hnífi. Allir hafi læst hurðum sínum í húsinu en maðurinn er íbúi þar sjálfur. Hann hafi barið á dyr og otað hnífnum út í loftið með ógnandi til­burðum.

„Þetta var frekar ó­hugnan­legt, að hann sé með hníf og að ota honum í allar áttir. Þetta er auð­vitað svo ró­legt hverfi,“ segir í­búinn. Sá hann sjö lög­reglu­menn á svæðinu og nokkra lög­reglu­bíla.

„Það er alveg þekkt leið að lög­reglan er með samninga­menn og menn eru talaðir til eins og hægt er. Lög­reglu­menn eru með­vitaðir um það að samningar eru besta leiðin. Oft beitir lög­regla því að að sýna þolin­mæði ef að­stæður leyfa það,“ segir Guð­mundur Pétur Guð­munds­son, lög­reglu­full­trúi, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann bætir við að það er hópur manna með slíka menntun í samninga­við­ræðum hjá lög­reglunni. Hins vegar sé meira um slíkar við­ræður þegar um gísla­tökur er að ræða. Maðurinn var að lokum hand­tekinn og vistaður í fanga­geymslu lög­reglu í nótt. Hann er grunaður um brot á vopna­lögum og of­beldi gegn opin­berum starfs­manni.