Þór­dís Kol­brún Gylfa­dóttir Reyk­fjörð, dóms­mála­ráð­herra, fundaði í vikunni bæði með full­trúum Rauða kross Ís­lands og Um­boðs­manni barna. Bæði höfðu þau óskað eftir því að funda með henni til að ræða mál­efni barna sem hafa sótt um vernd á Ís­landi en er synjað um efnis­með­ferð vegna þess að þau hafa hlotið vernd í öðru ríki. Síðustu vikur var mikið fjallað um mál­efni tveggja af­ganskra fjöl­skyldna sem báðum átti að vísa til Grikk­lands, þar sem að­stæður eru al­mennt taldar hrika­legar. Um var að ræða mál Sarwary- og Safari-fjöl­skyldnanna.

Þór­dís Kol­brún breytti fyrir viku síðan reglu­gerð um út­lendinga sem varð til þess að Út­lendinga­stofnun fékk heimild til að taka mál þeirra til efnis­með­ferðar. Enn á þó eftir að taka á­kvörðun um það hvort þau hljóti vernd á landinu. Meðal­máls­með­ferðar­tími hjá stofnuninni í slíkum málum er um sjö mánuðir. Fyrr í vikunni var greint frá því að alls uppfylli sex börn þau skilyrði sem sett voru fram í breyttri reglugerð.

Þór­dís segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fundirnir hafi báðir verið góðir og gagn­legir. Hún kynnti fyrr í vikunni fyrir ríkis­stjórninni til­lögur sem miða að því að börn verði sett í for­gang þegar mál þeirra eru tekin fyrir hjá Út­lendinga­stofnun. Stofnuninni verður veitt fjár­veiting í þeim til­gangi að stytta máls­með­ferðar­tíma þegar börn eiga í hlut.

Hún segir að ríkis­stjórnin sé sam­mála um mikil­vægi þess að hraða þeirri máls­með­ferð. Hún segir að tíma­bundið geti það kostað allt að 100 milljónir króna í ár og 100 milljónir króna á næsta ári. Kostnaður mun að mestu fara í að ráða fleira starfs­fólk svo hægt sé að hraða máls­með­ferð.

Þurfi að fara yfir verklag sem snýr að börnum

Salvör Nor­dal, um­boðs­maður barna, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fundurinn með ráð­herra hafi verið góður og að farið hafi verið yfir hvernig ráðu­neytið hefur brugðist við í málinu.

„Við ræddum um mikil­vægi þess að fara þurfi yfir verk­lagið eins og það snýr að börnum,” segir Salvör.

Hún segir að em­bættið hafi ekki tekið af­stöðu til reglu­gerðar­breytingarinnar sem Þór­dís sam­þykkti síðasta föstu­dag en segir að ráð­herra hafi sjálf tekið fram að endur­skoða þurfi allt ferlið. Þau séu sam­mála því.

Full ástæða til að endurskoða endursendingar til Grikklands

Atli viðar Thor­sten­sen, sviðs­stjóri hjálpar- og mann­úðar­sviðs hjá Rauða kross Ís­lands tekur undir orð Salvarar og segir að þau hafi einnig átt fínan fund með ráð­herra.

„Við áttum fínan fund þar sem við fórum yfir okkar sjónar­mið hvað varðar Grikk­land og að­stæður þar í landi. Einnig fórum við yfir að­gengi að menntun, heil­brigðis­þjónusta og fé­lags­legum úr­ræðum sem eiga að standa fólki til boða, en eru ýmsar hindranir á,“ segir Atli Viðar.

Hann segir að miðað við það sé full á­stæða, eins og þau hafa oft bent á, að endur­skoða endur­sendingar til Grikk­lands.

Spurður hvort hann telji að það séu breytingar í vændum segir Atli erfitt að segja til um það, en tekur fram að það hafi verið hlustað á þau af skilningi og á­huga.

Hann segir að reglu­gerð ráð­herra sé skref í rétta átt.

„En ráð­herra hefur sjálf sagt að það þurfi að endur­skoða alla fram­kvæmd, og þá hlýtur þessi tíma­rammi líka að koma til skoðunar, og líka varðandi börn sem falla undir Dyflinnar­sam­starfið,“ segir Atli Viðar að lokum.