Ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um stéttaandúð eru ekki úr lausu lofti gripin að sögn sérfræðings í stéttarannsóknum.

Guðmundur Ævar Oddsson, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, segir rannsóknir styðja málflutning Sólveigar.

„Við upplifum mikla stéttaandúð, mikla andúð á láglaunakonum og ekki síst aðfluttum láglaunakonum,“ sagði Sólveig í Fréttablaðinu í gær sem telur ekki hlustað sem skyldi á sjónarmið Eflingar.

„Það eru gild rök fyrir því sem Sólveig segir,“ segir Guðmundur.

Hann segir að láglaunafólk og ekki síst aðfluttar konur hafi samkvæmt rannsóknum afar lága rödd í samfélaginu. Hinir velmegandi hafa meiri völd en hinir fátæku. Viðmið millistéttar hér á landi séu önnur en hjá þeim sem lægst launin hafa.

„Þetta er hópur sem situr neðst í virðingarstiganum um allan heim,“ segir Guðmundur Ævar.

Þá fylgi oft fordómar gagnvart láglaunahópum sem jafnvel birtist í mismunun innan heilbrigðiskerfisins.

„Stéttaskipting er sannarlega fyrir hendi hér á landi þótt hún sé kannski ekki eins ýkt og sums staðar annars staðar,“ segir Guðmundur Ævar. Hann segir að frekari rannsóknir þurfi til hér á landi á högum láglaunafólks og frekari stéttarannsóknir.