Sam­komu­tak­mörk vegna heims­far­aldurs CO­VID-19 taka gildi í enn eitt skiptið hér á landi nú á mið­nætti. Vonast er til að þannig takist að stemma stigu við mikilli fjölgun smita undan­farna daga. Neðst í fréttinni má sjá lista yfir nýju takmarkanirnar.

Á mið­nætti er sléttur mánuður frá því að ríkis­stjórnin til­kynnti á blaða­manna­fundi að allar tak­markanir innan­lands hér á landi yrðu felldar úr gildi. Síðustu daga hafa smit hins­vegar hlaupið á tugum og öll eru smitin af Delta af­brigðinu svo­kallaða. Katrín Jakobs­dóttir sagði í sam­tali við Frétta­blaðið nýja stöðu komna upp hér á landi.

„Við erum þannig að reyna það sem þjóð hvernig bólu­efnin virka, en það fylgir því að vera fremstur í röðinni að enginn annar hefur neina for­skrift fyrir okkur. Við þurfum sjálf að vega og meta stöðuna sem er það sem okkar góða vísinda­fólk er að gera,“ segir Katrín. Bæði Víðir Reynis­son og Þór­ólfur Guðna­son hafa í­trekað bent á að staðan væri enn verri hér á landi ef ekki væri jafn hátt hlut­fall bólu­settra og raun ber vitni.

Sam­kvæmt nýju reglunum sem taka gildi nú á mið­nætti mega að há­marki 200 manns koma saman, fjar­lægðar­mörk verða einn metri auk þess sem opnunar­tími veitinga-og skemmti­staða verður styttur til mið­nættis. Þá verða fjölda­mörk í sund og líkams­rækt 75 prósent af leyfi­legum fjölda gesta.

Þá er grímu­skylda tekin upp þar sem lé­leg loft­ræsting er til staðar og/eða þar sem ekki er hægt að við­halda eins metra fjar­lægðar­tak­mörkunum. Að­gerðirnar verða í gildi í þrjár vikur, til og með 13. ágúst næst­komandi.

Fyrstu sam­komu­tak­markanir vegna far­aldursins voru settar á hér á landi þann 16. mars 2020. Síðan þá voru tak­markanir í gildi að ein­hverju leyti allt þar til þann 26. júní síðast­liðinn. Ríkis­stjórnin átti langan fund á Egils­stöðum síð­degis í gær þar sem fram­haldið var á­kveðið í kjöl­far þess að Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir sendi Svan­dísi Svavars­dóttur, heil­brigðis­ráð­herra minnis­blað sitt um til­lögur að að­gerðum.

Helstu takmarkanirnar eru þessar:

 • Almennar fjöldatakmarkanir verða 200 manns. Börn fædd 2016 og síðar eru undanþegin.
 • Nándarregla verður almennt 1 metri. Börn fædd 2016 og síðar verði undanþegin.
 • Grímuskylda verður tekin upp innanhúss og þar sem ekki er unnt að viðhafa 1 metra reglu. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin.
 • Hámarksfjöldi viðskiptavina í verslunum verði 200.
 • Heilsu- og líkamsræktarstöðvum sem og sund- og baðstöðum verður heimilt að hafa opið fyrir 75% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.
 • Söfnum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta.
 • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna heimilar með og án snertinga með 100 manna hámarksfjölda. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými sem skulu skráðir í sæti. Veitingasala óheimil á keppnisstöðum.
 • Æfingar og sýningar sviðslista og sambærilegrar starfsemi heimilar með allt að 100 manns á sviði. Hámarksfjöldi áhorfenda 200 manns í rými, svo sem í bíóhúsum. Heimilt að hafa hlé en enga veitingasölu í hléum. Skrá skal gesti í sæti.
 • Hámarksfjöldi gesta við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga verður 200.
 • Opnunartími veitingastaða, skemmtistaða o.þ.h. verður til kl. 23:00 (tæma þarf staði fyrir miðnætti) og hámarksfjöldi gesta 100 manns í rými. Vínveitingar bornar fram til sitjandi gesta. Skrá skal gesti.
 • Tjaldstæði og hjólhýsasvæði fari eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og Ferðamálastofu.