Sam­komu­tak­markanir í höfuð­borg Suður-Kóreu Seoul hafa aftur verið hertar mjög eftir að fjöldi nýrra kórónu­veiru­smita greindust í landinu í gær. Þá varð mesta fjölgun smita í 53 daga þegar 79 ný smit greindust. The Guardian greinir frá.


Suður-Kóreu­búar virtust hafa náð góðri stjórn á far­aldrinum en nú virðist önnur bylgja nýrra smita vera að hefjast. Því hefur verið gripið til þess ráðs að herða aftur sam­komu­tak­markanir til að hefta út­breiðslu veirunnar.


Heil­brigðis­ráð­herra landsins til­kynnti það að frá og með deginum í dag yrðu öll söfn og al­mennings­garðar lokuð í tvær vikur. Tak­markanirnar gildir að­eins í höfuð­borginni Seoul en þar býr um helmingur allra 51 milljón íbúa landsins. Stefnt er að því að af­létta sam­komu­banninu þann 14 júní.

Nem­endur í Seoul hafa skil­rúm á milli sín. Það er ein sú sótt­varnar­ráð­stöfun sem var gripið til í far­aldrinum.
AFP


Í­búum borgarinnar hefur verið ráð­lagt að halda sig frá sam­komum eða fjöl­mennum stöðum eins og veitinga­stöðum og krám. „Næstu tvær vikur munu skipta sköpum í bar­áttu okkar til að hefta út­breiðslu veirunnar í stór­borginni,“ sagði heil­brigðis­ráð­herrann. „Við þurfum aftur að setja á fjar­lægðar­reglur og bönn við sam­komum ef okkur mis­tekst.“

Hann hvatti þá fyrir­tæki í landinu til að veita starfs­fólki sínu aukinn sveigjan­leika til að vinna heima og taka sér frí ef það er veikt.


Sam­komu­tak­mörkunum hafði verið af­létt í öllu landinu 6. maí síðast­liðinn. Í gær greindust svo 79 ný smit og greindust 67 þeirra í höfuð­borginni. Yfir­völd hafa sagt að mun erfiðara sé orðið að rekja smitin og hvar þau komu upp. Fólk er þá hvatt til að sýna ítrustu gát og huga vel að sótt­vörnum svo önnur bylgja fari ekki af stað í landinu.