Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna að hann hafi lagt það til við heilbrigðisráðherra að aðgerðir til að hefta útbreiðslu COVID-19, til að mynda samkomubannið, verði framlengdar til lok apríl.

Samkomubanninu átti upprunalega að ljúka 13. apríl en Þórólfur segir það nauðsynlegt í ljósi álagsins á heilbrigðiskerfið að aðgerðirnar haldi áfram. Alls eru 40 manns inniliggjandi á Landspítala og einn á Sjúkrahúsinu á Akureyri, þar af eru ellefu á gjörgæslu á Landspítala og einn á Akureyri og eru ellefu manns í öndunarvél.

„Ég minni á að við þurfum að halda áfram að með þessar aðgerðir því að veiran mun ekki virða frídaga og hún muni ekki virða páska. Þannig að það er mikilvægt að við höldum þessum aðgerðum áfram hvort sem það eru páskar eða eða aðrir frídagar,“ sagði Þórólfur á fundinum.

Áfram í uppsveiflu

Staðfest smit af völdum COVID-19 hér á landi eru nú orðin 1220 en 85 tilfelli hafa greinst frá því í gær. Heildarfjöldi sýna fer að nálgast tuttugu þúsund en flest smit greinast á sýkla- og veirufræðideild Landspítala á meðan um eitt prósent sýna reynast jákvæð hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Af þeim sem greinast eru um 50 prósent nú þegar í sóttkví en hátt í átta þúsund manns eru nú í sóttkví á meðan svipaður fjöldi hefur lokið sóttkvís aðgerðum. Að sögn Þórólfs urðu mistök við uppfærslu talna á vefnum covid.is fyrir síðustu þrjá daga þar sem um var að ræða óeðlilega lágar tölur en það hefur verið uppfært.

Faraldurinn fylgir áfram línulegum vexti en að sögn Þórólfs er hann enn í uppsveiflu. Hvað álag á spítala og gjörgæslu varðar fylgjum við verstu spá en að öðru leyti hafi tekist vel að sveigja veldisvöxt sjúkdómsins í samfélaginu.

Reynir á úthaldið

„Núna reynir virkilega á úthaldið og samstöðuna og því skora ég á alla að standa saman um þær aðgerðir sem eru í gangi þannig að okkur takist sem best að hindra framgang þessarar sýkingar,“ sagði Þórólfur og vísaði þar til leiðbeininga sem gilda um hreinlæti, sýkingavarnir, fjarlægðarmörk og samkomutakmarkanir.

Einnig hvatti hann fólk í viðkvæmum hópum, til að mynda þá sem eru með öndunarfærasýkingar, kvef, hita eða hósta, að loka sig af og fara ekki innan um fólk til þess að hægt sé að taka úr þeim sýni.

Fréttin hefur verið uppfærð.