Hert samkomubann stjórnvalda tekur gildi núna á miðnætti og mega ekki fleiri en tuttugu einstaklingar koma saman að hverju sinni. Hætt hafði verið við fjölmarga viðburði og hafa ýmsir staðir gripið til ráðstafanna í ljósi fyrra samkomubannsins.

Ljóst er að bannið sem nú tekur gildi komi til með að hafa töluverð áhrif þar sem fjölmörgum stöðum verður lokað um óákveðinn tíma. Sérstakar reglur gilda um skólastarf auk matvöru- og lyfjaverslanir.

Þeir staðir sem kjósa að hafa opið þurfa að gæta þess að að fleiri en tuttugu manns komi ekki saman og gildir sú ákvörðun bæði um opinber og einkarými. Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Þá er einnig nauðsynlegt að þrifið sé reglulega í verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur og gæta þess að algengir snertifletir séu sérstaklega vel þrifnir. Tryggja skal aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur við alla innganga.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um staði á höfuðborgarsvæðinu sem loka á meðan samkomubannið er í gildi:

Sundlaugar: Allar sundlaugar Reykjavíkurborgar loka auk Fjölskyldu og húsdýragarðsins, ylströndinni í Nauthólsvík og Skautahallarinnar.

Skíðasvæði: Skíðasvæðum Reykjavíkurborgar verða lokað, þar á meðal Bláfjöllum, Skálafelli og einstaka skíðalyftum í hverfum.

Söfn: Öllum söfnum Reykjavíkurborgar verður lokað; Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni sem og eftirfarandi sýningarstöðum Borgarsögusafns: Landnámssýningunni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og safnsvæði Árbæjarsafns. Þá verður Borgarbókasafni lokað.

Snyrtistofur: Allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur, og önnur sambærileg starfsemi loka tímabundið þar sem mikil nálægð er óheimil.

Kvikmyndahús: Bíó Paradís lokar tímabundið auk þess sem Smárabíó og Háskólabíó loka um óákveðin tíma.

Veitingastaðir: Fjölmargir veitinga- og skemmtistaðir koma til með að loka, til að mynda IKEA, Te og kaffi, Apótekið, Tapasbarinn, Kaffi París, Röntgen, og svo framvegis.

Líkamsræktarstöðvar: Allar líkamsræktarstöðvar loka, til að mynda World Class,Reebok Fitness, Crossfit Reykjavík, og svo framvegis.

Verslunarmiðstöðvar: Kringlan hefur skert sinn opnunartíma og hefur setusvæðum Stjörnutorgs og Kringlutorgs verið lokað tímabundið. Smáralind hefur einnig skert sinn opnunartíma og hafa sumar verslanir lokað tímabundið.