Samkeppniseftirlitið hefur sent erindi til Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) vegna opinberrar umfjöllunar undanfarið af hálfu SFF, sem lýtur annars vegar að verðlagningu tryggingafélaga og hins vegar vaxtakjörum banka.

Fréttablaðið hefur greint frá báðum málunum sem eru tilefni erindisins. Framkvæmdastjóri SFF, brást við skrifum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um meint iðgjaldaokur tryggingafélaganna með grein á heimasíðu samtakanna og Vísi.

FÍB taldi afskiptin mögulegt lögbrot eða í öllu falli óeðlilega hagsmunagæslu fyrir tryggingafélögin. FÍB sendi inn kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. Í hinu málinu svaraði sérfræðingur hjá SFF opinberlega gagnrýni VR um meint vaxtaokur bankanna.

Í erindi Samkeppniseftirlitsins til SFF vekur eftirlitið athygli á eldri málum á fákeppnismarkaði. Meðal annars segir í erindinu:

„Tjái forsvarsmenn hagsmunasamtaka keppinauta sig opinberlega um verðlagsmál eða haldi uppi vörn um verðlagsstefnu aðildarfélaga samtakanna, þá sé það væntanlega á grundvelli fyrir fram mótaðra hugmynda eða stefnu um slík mál, sem hlýtur að grundvallast á umræðu sem farið hefur fram innan hagsmunasamtakanna. Slík verðlagsumræða innan hagsmunasamtaka samrýmist ekki banni samkeppnislaga um verðsamráð.“

Að mati Samkeppniseftirlitsins er því ljóst að hagsmunasamtök fyrirtækja verða að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og/eða fræðslu sem áhrif hafa eða kunna að hafa á markaðshegðun félagsmanna.

Öll afskipti af verði og verðlagningu aðildarfélaga, þar með talin þátttaka í opinberri umræðu um verðlagningu félagsmanna, sé sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.

Vegna þessa óskar Samkeppniseftirlitið eftir ýmsum gögnum, meðal annars afriti af öllum samskiptum SFF við aðildarfyrirtæki á tímabilinu frá 1. maí 2021 til dagsins í dag.

„Er hér til dæmis átt við alla tölvupósta eða önnur gögn sem SFF hefur annaðhvort sent aðildarfyrirtækjum eða fengið frá þeim,“ segir í erindinu sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í framhaldi af svörum SFF mun Samkeppniseftirlitið taka ákvörðun um hvort málið verði tekið til frekari rannsóknar.