Samkeppniseftirlitið hefur til athugunar að meta stöðu lyfjatæknifyrirtækisins Ísteka og háttsemi gagnvart bændum sem eru á samningum hjá fyrirtækinu vegna blóðtöku á fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu.

Athugunin er ekki formlega hafin en er í undirbúningi. Þetta staðfestir Samkeppniseftirlitið í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Í tilefni af opinberri umfjöllun nú nýlega og með hliðsjón af fyrri samskiptum við bændur sem mótteknar voru sem ábendingar, hefur Samkeppniseftirlitið til athugunar að meta stöðu Ísteka og háttsemi gagnvart bændum og hvort hún samræmist samkeppnislögum,“ segir Haukur Harðarson, sérfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu.

Ólafur Róbert Rafnsson, hestamaður.
Fréttablaðið/Anton Brink

Ólafur Róbert Rafnsson, hestamaður og starfar sem ráðgjafi í áhættustjórnun og upplýsingaöryggi, birti nýlega grein á Vísi þar sem hann greindi frá því að bændur hafi kvartað undir því hvað samningar hafa lítið breyst í 40 ár. Hann fullyrðir að búskapurinn standi ekki undir sér og að blóðtökubændur geti ekki haft tekjur án þess að vanrækja fóður, umhirðu og aðbúnað hrossanna.

„Niðurstaðan mín er miðað við þessar forsendur sú að ég get ekki með nokkru móti séð að þessi blóðmerabúskapur standi undir sér og sorglegt að verða vitni að því að þetta sé yfir höfuð stundað hér á landi,“ skrifar Ólafur.

Tölur sem Ólafur Róbert birtir í grein sinni á Vísi

Blóðmerar alls ekki vanræktar að sögn Ísteka

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, segir málflutning Ólafs fráleitan hvernig sem á hann sé litið.

„Hann gefur sér ítrekað forsendur sem ekki standast og fabúlerar ofan á þær,“ segir Arnþór við Fréttablaðið. Hann hafnar því alfarið að blóðmerar séu vanræktar.

„Þeir sem halda því fram að stóðhryssur á Íslandi séu vanræktar á einhvern hátt hafa líklega ekki kynnt sér ástand hrossanna með eigin augum en þau eru upp til hópa heilbrigðustu hross landsins.“

Hækkandi verðskrá til ársins 2023

Arnþór segir meðalverð blóðs hafi frá árinu 2000 hækkað ríflega áttfalt á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 2,5 falt á sama tíma, meira en þreföld raunhækkun.

„Raunin er sú að verðþróun hefur ekki verið örari í neinni annarri íslenskri landbúnaðargrein. Það er enda ástæða þess að vöxtur hefur verið í henni hin seinustu ár, æ fleiri bændur sjá sér hag í því að selja blóð úr hryssum sínum,“ segir Arnþór.

Hann bendir á að árið 1981, tveimur árum eftir að afurðir hryssu voru reiknaðar á 38 þúsund krónur, var gerð myntbreyting á Íslandi og tvö núll tekin aftan af krónunni. Hundrað krónur urðu þannig að einni, þúsund að tíu.

„Það er örlítið hjákátlegt að greinahöfundur skuli ekki taka tillit til þess,“ segir Arnþór. Hann tekur fram að Ísteka sé eina afurðafyrirtækið í íslenskum landbúnaði, sem hann þekkir til, sem hefur gert langtímasamninga við bændur. Sá seinasti var gerður árið 2019, með hækkandi verðskrá á hverju ári til ársins 2023.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.
Mynd: Ísteka