„Það skiptir okkur miklu máli að fá með okkur í þetta verkefni aðila sem sýna í verki að þeir ætla að taka þátt í að berjast gegn loftslagsvánni,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.

Móttöku- og förgunarmiðstöðin Coda Terminal, sem verður sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu þar sem Carbfix-tækninni verður beitt til steinrenningar á koltvísýringi, hefur samið við danska skipafélagið Dan-Unity CO2 um flutning á koltvísýringi til förgunar í stöðinni í Straumsvík.

Skipafélagið sem hefur áratuga reynslu í flutningi á ýmsum gastegundum á sjó mun flytja koltvísýring á sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti. Kolefnissporið sem hlýst af flutningunum verður aðeins um 3 til 6 prósent af því sem farga á og minnkar síðan.

Gert er ráð fyrir að fyrstu skipin byrji að sigla hingað til lands frá Norður-Evrópu árið 2025.

Undirbúningsfasi er hafinn. Gert er ráð fyrir að hægt verði að farga allt að þremur milljónum tonna árlega í Straumsvík árið 2030.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í apríl mun Coda Terminal skapa 600 bein og afleidd störf. Stöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu.

Dan-Unity CO2 er fyrsta skipafélagið í heiminum sem einsetur sér að tengja saman föngunar- og förgunarstaði með stórtækum flutningi á koltvísýringi. Félagið varð til við samruna Evergas og Ultragas, tveggja reynslumestu skipafélaga í Danmörku, sem bæði eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að flutningi á jarðgasi og jarðgasvökvum.

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Mynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Hvert skip mun flytja um 12 til 24 þúsund tonn af koltvísýringi í vökvaformi en áætlaður kostnaður við flutning og förgun í Straumsvík er 30 til 65 evrur á hvert tonn. Til samanburðar kostar um 100 evrur að flytja og farga hverju tonni í sambærilegu verkefni í Noregi sem kallast Northern Lights.

„Við hjá Dan-Unity CO2 teljum samstarf okkar við Carbfix vera stórkostlegt tækifæri til að lækka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu,“ segir Steffen Jacobsen, forstjóri Evergas.

Steffen Jacobsen, forstjóri Evergas

„Sem leiðtogi á sviði alþjóðlegra sjóflutninga hefur Danmörk einstakt tækifæri til að gegna leiðtogahlutverki sem byggir á reynslu og nýrri tækni. Danskar loftslagslausnir eru nú þegar þekktar á heimsvísu, má þar nefna græna orkugjafa sem knýja munu flutningaskip. Því er ljóst að saman getum við styrkt stöðu okkar.“

Edda Sif er ánægð með samninginn enda félagið rótgróið fyrirtæki með áratuga reynslu í gasflutningi.

„Danmörk er að leggja mikla áherslu á loftslagsmálin og vonandi er þetta aðeins byrjunin á samstarfi Íslands og Danmerkur í baráttunni gegn loftslagsvánni,“ segir hún.

Flutningur á koltvísýringi til landsins verður að sögn Eddu bæði umhverfisvænni og arðbærari sem sé mikið fagnaðarefni.