Mercosur eru fríverslunarsamtök fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Á síðasta ári voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 1,5 milljarða króna til Mercosur-landanna. Vöruinnflutningur nam hins vegar um 24 milljörðum króna en þar vegur súrál langþyngst en það var þegar tollfrjálst.

Með samningnum lækka tollar á flestar vörur sem fluttar eru frá Íslandi. Munu nær allar sjávar­afurðir þannig njóta fulls tollfrelsis.

„Við höfum lagt mikla áherslu á að ljúka samningaviðræðum við Mercosur-ríkin og það er ánægjulegt að sá samningur sé nú í höfn. Markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir er sérstaklega mikilvægur fyrir okkur og hann eykst umtalsvert með þessum samningi,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í tilkynningu.

Að sögn Guðlaugs er samningur EFTA-ríkjanna ekki síðri en nýlegur samningur sem Evrópusambandið gerði við Mercosur.