Friðarviðræður uppreisnarsamtaka Húta og ríkisstjórnar Jemens héldu áfram í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í gær. Samið var um að vopnahlé yrði gert í hafnarborginni Hodeidah á vesturströnd landsins og í nærsveitum borgarinnar. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er höfðu milligöngu um viðræðurnar, sagði að vonandi væri í framhaldinu hægt að binda enda á þá fjögurra ára styrjöld sem hefur ríkt í Jemen.

Orrusta hefur geisað um Hodeidah með hléum frá því í júní. Pattstaða er á svæðinu en orrustan hefur bitnað harkalega á almennum borgurum sem kljáðust við sult og sjúkdóma áður en orrustan braust út. Stór hluti innfluttra matvæla í Jemen kemur alla jafna í gegnum hafnarborgina.

Samkvæmt samþykkt gærdagsins munu allir hermenn bæði Húta og Hadi-stjórnarinnar yfirgefa borgina á komandi dögum. Í staðinn munu koma öryggissveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá munu Hútar einnig yfirgefa hafnarbæina Saleef og Ras Isa er liggja norður af Hodeidah. Þegar þeir hafa yfirgefið bæina mun vopnahlé taka gildi í Hodeidah-héraði, að því er Guterres greindi frá í gær.

Von á frekari samþykktum

BBC greindi frá því að fylkingarnar hefðu komist að samkomulagi um Taiz, þriðju stærstu borg Jemens, þar sem barist hefur verið undanfarin ár. Lítið er þó vitað um innihald þessa samkomulags.

Viðræður standa hins vegar enn yfir. Guterres sagðist vonast eftir því að innan viku næðist samkomulag um að opna alþjóðaflugvöllinn í höfuð­borginni San'a á ný en Hútar halda höfuðborginni. Einnig sagði Guterres að fylkingarnar myndu mæta aftur til viðræðna í janúar.

Viðræðurnar í Stokkhólmi eru þær fyrstu í tvö ár sem Hútar og ríkisstjórnin hafa mætt til. Auk þess að samþykkja vopnahlé í Hodeidah var til að mynda komist að samkomulagi á þriðjudag um skipti á 16.000 föngum.

Bandaríkin ræða um að hætta stuðningi

Stríðið í Jemen hefur geisað frá því 2015. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings hernaðarbandalags sem Sádi-Arabar leiða. Sádi-Arabar og sjö önnur Arabaríki ákváðu á sínum tíma að skerast í leikinn til að koma í veg fyrir að Hútar næðu völdum enda eru Hútar taldir njóta stuðnings Írans. Sádi-Arabar og Íranar eiga í köldu stríði og því er um eins konar leppstríð að ræða í Jemen.

Bandaríkin hafa stutt bandalagið. Öldungadeild bandaríska þingsins er sögð líkleg til að álykta um að hætta skuli stuðningi. Meðal annars vegna þess hve margir almennir borgarar hafa farist í loftárásum bandalagsins og vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi. En til þess að stuðningi sé hætt þurfa bæði fulltrúadeildin og Donald Trump forseti að samþykkja ályktunina. Það þykir afar ólíklegt, samkvæmt NPR.