Hópur ungra manna, sem réðist á ungan erlendan dreng í Hamraborg í síðustu viku, er einnig sakaður um að hafa ráðist á tvo marokkóska bræður í Njarðvík fyrr í þessum mánuði.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða nokkra hópa sem stunda það að ráðast á einstaklinga, í flestum tilfellum unga erlenda stráka, neyða einstaklinga til kyssa eða sleikja skóna sína, taka það upp á myndbönd og deila því á samfélagsmiðlum.

Sigurður Hólm Gunnarsson, forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga, segir algengt að unglingar taki myndbönd af árásum og hópslagsmálum og deili þeim á milli sín. Sigurður hefur skrifað mikið um svipuð mál og rætt við börn og foreldra sem hafa svipaða sögu að segja og strákurinn sem varð fyrir hrottalegri árás í Kópavogi í síðustu viku.

Sigurður deilir sögum með Fréttablaðinu sem hann hefur heyrt frá öðrum fjölskyldum. Enginn vill þó koma fram undir nafni sem Sigurður segir eðlilegt: „Foreldrar eru hræddir um börn sín og þora því ekki að stíga fram undir nafni. En mér finnst mikilvægt að deila þessum sögum og koma af stað umræðu í samfélaginu. Gerendur eru oft einstaklingar sem þurfa á mikilli hjálp að halda.“

„Það er í tísku að ráðast á fólk og láta fórnalambið kyssa skóna sína.“

„Ég á 15 ára son sem er vinur þessara fórnarlamba. Sonur minn sagði mér að þetta væru fleiri en einn hópur að stunda þetta,“ segir annar einstaklingur sem fullyrðir að hópurinn, sem réðist á unga drenginn í Hamraborg, hafi einnig ráðist á aðra erlenda unga stráka.

„Ég stoppaði svona árás fyrir mánuði síðan við hjá strætó í Firðinum. Það voru sömu strákarnir og í þessu myndbandi. Þessi sami hópur hefur verði að ráðast á bræður sem búa í Njarðvík og lamið þá nokkrum sinnum síðustu mánuði. Þessir bræður eru frá Marokkó. Það þarf að stoppa þenna hóp með einhverjum ráðum.“

Nokkrar Instagram síður hvetja börn og unglinga til að senda inn myndskeið af slögum þar sem þau eru svo birt til fylgjenda. „Sendið video af slögum,“ stendur í lýsingunni fyrir neðan mynd tveimur einstaklingum í slagi.
Mynd/Instagram

„Það er í tísku að ráðast á fólk og láta fórnalambið kyssa skóna sína. Gerandinn heldur að hann eða hún séu eitthvað betri ef þau fá koss á skóna sína. Ég hef þurft að stoppa svona áður í stræto.

Ég settist við hliðina á strák sem þekkti bróður minn og við fórum að spjalla þegar tveir drengir löbbuðu inn. Ég þekkti einn þeirra og þeir báðir voru mjög reiðir og komu upp að okkur og ýttu fórnalambinu niður og hótuðu honum.

Ég reyndi með öllum mínum kraft að stoppa þetta en þeir hótuðu mér líka. Þér létu fórnalambið kyssa skóna hjá gerandanum og fóru svo út á næstu stoppistöð,“ segir annar einstaklingur sem deildi sögunni með Sigurði.

Lögreglan tilkynnti fyrr í dag að hún væri að rannsaka mál drengsins sem ráðist var á í Kópavogi í síðustu viku. Þeir sem urðu vitni að árásinni, eða búa yfir vitneskju henni tengdri, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið [email protected]