Sam­herji hefur krafið RÚV um af­sökunar­beiðni vegna full­yrðinga sinna í seinni kvöld­frétta­tíma síðasta fimmtu­dag um að Sam­herja hefði tekist að afla sér kvóta í Namibíu með því að múta em­bættis­mönnum. Sam­herji telur sig í rétti til að lög­sækja stofnunina vegna málsins.


Fréttin fjallaði um þróunar­að­stoð og var þar sagt að Namibíu­menn hefðu ekki notið þeirrar þróunar­að­stoðar sem Ís­lendingar hefðu veitt þeim vegna fram­gangs Sam­herja í landinu.


Lög­fræðingur Sam­herja sendi RÚV bréf um málið í gær þar sem farið var fram á að stjórn RÚV birti án tafar leið­réttingu á um­mælum frétta­mannsins og biðjist undan­dráttar­laust af­sökunar. Í fréttinni segir frétta­maðurinn „Tókst Sam­herja hins vegar að afla sér kvóta í landinu með því að múta em­bættis­mönnum, eins og fjallað var um í Kveik í vetur, heima­menn nutu því ekki að­stoðarinnar sem veitt var,“ um þróunar­að­stoð Ís­lendinga til Namibíu­manna.


Sam­herji segir að þessi full­yrðing eigi sér enga stoð í raun­veru­leikanum og sé úr lausu lofti gripin. „Þetta hefði mögu­lega mátt forðast hefði Sam­herja verið gefinn kostur á and­mælum áður en fréttin var flutt svo sem reglur á­skilja,“ segir í bréfinu. Er þar vísað til vinnu­reglna RÚV sem segja að þegar um sé að ræða al­var­legar á­sakanir, eins og lög­brot, verði að gefa við­komandi mögu­leika til and­svara í sama frétta­tíma eða geta þess að frá­sagnar af hans sjónar­miðum sé að vænta, náist ekki í hann.

RÚV hafi tekið efnislega afstöðu til málsins


Þá gerir Sam­herji einnig at­huga­semd við fram­setningu fréttarinnar þar sem „stillt er upp er­lendum við­mælanda sem ræðir um spillingu og látið líta út eins og um­ræðu­efnið sé mál Sam­herja sem frétta­stofunni er undar­lega hug­leikið. Við­mælandinn sagði þó ekkert um Sam­herja í við­talinu,“ segir í bréfinu. Einnig er gagn­rýnt að á meðan við­mælandinn hafi talað um spillingu hafi verið sýndar myndir af stjórn­endum Sam­herja.


Þannig telur Sam­herji að með fréttinni hafi verið brotið gegn vinnu­reglum frétta­stofu Ríkis­út­varpsins með að minnsta kosti tvennum hætti. Annars vegar hafi verið tekin efnis­leg af­staða til máls Sam­herja sem sé í rann­sókn og hins vegar hafi Sam­herja ekki verið gefið færi á að svara fyrir á­sakanirnar í sama frétta­tíma.


„Þó þessi brot á siða­reglunum séu al­var­leg er enn al­var­legra að full­yrðing frétta­manns Ríkis­út­varpsins um að Sam­herji hafi mútað em­bættis­mönnum í Namibíu er fyrir­vara­laus á­sökun um al­var­legan refsi­verðan verknað og hún er ekki studd neinum rökum,“ segir svo.


„Með vísan til framan­greinds er þess krafist, f.h. um­bjóðanda míns [Sam­herja], að Ríkis­út­varpið birti án tafar leið­réttingu á framan­greindum um­mælum frá 13. febrúar síðast­liðnum og biðjist undan­dráttar­laust af­sökunar. Um­bjóðandi minn á­skilur sér auk þess rétt til að höfða mál vegna þessara um­mæla og annarra.“