Útgerðarfélagið Samherji hótaði bókaútgáfunni Forlaginu málsókn ef bók um Namibíumálið sem kom út á vegum forlagsins 2019 yrði ekki innkölluð. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í dag.
„Við höfum aldrei fengið neitt þessu líkt: Þetta er alveg einstakt,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, í viðtali við blaðamann Stundarinnar.
Að sögn Egils sendi Jón Óttar Ólafsson, starfsmaður Samherja, honum tölvupóst í desember 2019 þar sem hann hótaði Forlaginu málsókn í Lundúnum og varaði hann við því að slíkt gæti orðið afar kostnaðarsamt.
„Googlaðu bara English defamation law og hvað málflutningsmaður QC kostar á klukkutímann. Þetta er ekki hótun ... bara að aðstoða þig að taka upplýsta ákvörðun,“ sagði í tölvupósti Jóns Óttars.
Bókin sem um ræðir og Samherji krafðist þess að yrði innkölluð heitir Ekkert að fela: Á slóð Samherja í Afríku og er eftir Aðalstein Kjartansson, Helga Seljan og Stefán Drengsson. Hún kom út undir merkjum Vöku-Helgafells stuttu eftir að þáttur blaðamannanna um Namibíumálið og umfangsmiklar mútugreiðslur Samherja þar í landi í skiptum fyrir fiskveiðikvóta var sýndur á Kveik á RÚV í nóvember 2019. Þegar hótanirnar bárust Forlaginu var þegar búið að prenta bókina í 2.500 eintökum og dreifa henni í verslanir um allt land.

Mætti tvisvar óumbeðinn
Jón Óttar, sem er fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og starfaði hjá Samherja í Namibíu, mætti auk þess tvisvar óumbeðinn á skrifstofu Forlagsins áður en hótunin barst en Egill kunni þá ekki deili á honum.
„Ég átti ekkert von á honum. Hann bara dúkkaði hér upp í miðri jólavertíð. Og það var í raun og veru mjög óformlegt spjall sem ég skildi ekki almennilega. Hann var mjög almennilegur og kurteis og engar hótanir eða neitt slíkt,“ segir Egill og bætir því við að erindi Jón Óttars hafi verið óljóst.
Fundur á skrifstofu Þorsteins Más
Stuttu eftir heimsóknirnar tvær boðaði Jón Óttar Egil á fund í höfuðstöðvum Samherja í Katrínartúni. Fundurinn fór fram á skrifstofu forstjóra Samherja, Þorsteins Más Baldvinssonar, sem var sjálfur ekki viðstaddur. Að sögn Egils setti Jón Óttar þar fyrst fram þá kröfu að Forlagið myndi innkalla bókina og sýndi Agli myndbönd og upptökur af Jóhannesi Stefánssyni, uppljóstrara í Namibíumálinu.
Egill segir upptökurnar hafa átt að sýna fram á Jóhannes væri ótrúverðugur sem heimildarmaður en það hafi þó aldrei hvarflað að honum að innkalla bókina um Namibíumálið.
„En aftur fannst mér það ekkert með efni bókarinnar að gera. Eða efni þáttarins. Og var alls ekki til þess fallið að það hvarflaði að mér að íhuga það af einhverri alvöru að innkalla bók,“ segir Egill.