Út­gerðar­fé­lagið Sam­herji hótaði bóka­út­gáfunni For­laginu mál­sókn ef bók um Namibíu­málið sem kom út á vegum for­lagsins 2019 yrði ekki inn­kölluð. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í dag.

„Við höfum aldrei fengið neitt þessu líkt: Þetta er alveg ein­stakt,“ segir Egill Örn Jóhanns­son, fram­kvæmda­stjóri For­lagsins, í við­tali við blaða­mann Stundarinnar.

Að sögn Egils sendi Jón Óttar Ólafs­son, starfs­maður Sam­herja, honum tölvu­póst í desember 2019 þar sem hann hótaði For­laginu mál­sókn í Lundúnum og varaði hann við því að slíkt gæti orðið afar kostnaðar­samt.

„Googlaðu bara English d­efa­mation law og hvað mál­flutnings­maður QC kostar á klukku­tímann. Þetta er ekki hótun ... bara að að­stoða þig að taka upp­lýsta á­kvörðun,“ sagði í tölvu­pósti Jóns Óttars.

Bókin sem um ræðir og Sam­herji krafðist þess að yrði inn­kölluð heitir Ekkert að fela: Á slóð Sam­herja í Afríku og er eftir Aðal­stein Kjartans­son, Helga Seljan og Stefán Drengs­son. Hún kom út undir merkjum Vöku-Helga­fells stuttu eftir að þáttur blaða­mannanna um Namibíu­málið og um­fangs­miklar mútu­greiðslur Sam­herja þar í landi í skiptum fyrir fisk­veiði­kvóta var sýndur á Kveik á RÚV í nóvember 2019. Þegar hótanirnar bárust For­laginu var þegar búið að prenta bókina í 2.500 ein­tökum og dreifa henni í verslanir um allt land.

Ekkert að fela: Á slóð Sam­herja í Afríku, eftir Aðal­stein Kjartans­son, Helga Seljan og Stefán Drengs­son.
Kápa/Forlagið

Mætti tvisvar ó­um­beðinn

Jón Óttar, sem er fyrr­verandi rann­sóknar­lög­reglu­maður og starfaði hjá Sam­herja í Namibíu, mætti auk þess tvisvar ó­um­beðinn á skrif­stofu For­lagsins áður en hótunin barst en Egill kunni þá ekki deili á honum.

„Ég átti ekkert von á honum. Hann bara dúkkaði hér upp í miðri jóla­ver­tíð. Og það var í raun og veru mjög ó­form­legt spjall sem ég skildi ekki al­menni­lega. Hann var mjög al­menni­legur og kurteis og engar hótanir eða neitt slíkt,“ segir Egill og bætir því við að erindi Jón Óttars hafi verið ó­ljóst.

Fundur á skrif­stofu Þor­steins Más

Stuttu eftir heim­sóknirnar tvær boðaði Jón Óttar Egil á fund í höfuð­stöðvum Sam­herja í Katrínar­túni. Fundurinn fór fram á skrif­stofu for­stjóra Sam­herja, Þor­steins Más Bald­vins­sonar, sem var sjálfur ekki við­staddur. Að sögn Egils setti Jón Óttar þar fyrst fram þá kröfu að For­lagið myndi inn­kalla bókina og sýndi Agli mynd­bönd og upp­tökur af Jóhannesi Stefáns­syni, upp­ljóstrara í Namibíu­málinu.

Egill segir upp­tökurnar hafa átt að sýna fram á Jóhannes væri ó­trú­verðugur sem heimildar­maður en það hafi þó aldrei hvarflað að honum að inn­kalla bókina um Namibíu­málið.

„En aftur fannst mér það ekkert með efni bókarinnar að gera. Eða efni þáttarins. Og var alls ekki til þess fallið að það hvarflaði að mér að í­huga það af ein­hverri al­vöru að inn­kalla bók,“ segir Egill.

Nánar má lesa um málið á vef Stundarinnar.