Svokölluð „skæruliðadeild“ Samherja fylgdist með ferðum Helga Seljan, blaðamanns RÚV, síðastliðinn febrúar þegar hann var staddur í Kýpur.

Í nýjustu afhjúpun Kjarnans er vitnað í skilaboð milli Páls Steingrímssonar, skipstjórans í „skæruliðadeildinni“, og Jóns Óttars Ólafssonar, starfsmanns Samherja og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns. Þegar Helgi var að sinna rannsóknarblaðamennsku í Kýpur fyrir þátt Kveiks spurði Páll hvort Helgi væri staddur í Namibíu. Svaraði Jón Óttar að það væri „verið að tékka á því. Sú skoðun byrjaði í dag“.

Sömuleiðis ræddi Páll við Örnu Bryndís Baldvins McClure um að komast á snoðir um ferðir Helga á meðan Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu og uppljóstrari, var staddur í sendiráði Namibíu í Þýskalandi að gefa skýrslu. Að sögn Kjarnans sagðist Páll ætla að ræða við Martin Eyjólfsson, fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi og núverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, til að athuga hvort Helgi væri staddur í Berlín. Martin staðfesti við Kjarnann að hann hefði rætt við Pál en ekki var unnt að verða við beiðninni.

Bæði Stundin og Kjarninn hafa birt greinaraðir um hóp starfsmanna innan Samherja sem hafa stundað ófrægingarherferðir gegn fjölmiðlamönnum, listamönnum og stjórnmálamönnum með vitneskju og samþykki yfirmanna sinna. Forsvarsmenn Samherja hafa ekki brugðist við fréttunum og vilja ekki svara spurningum blaðamanna um skæruliðadeildina.

Fjölmiðlar greindu ítrekað frá áreiti Jóns Óttars í garð Helga sem byrjaði í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið, en hann meðal annars sat fyrir Helga á Kaffifélaginu og sendi honum ógnandi skilaboð.

Sjá einnig: Jón Óttar biður Helga Seljan af­sökunar: „Ég sé mikið eftir því að hafa sent þau“

Jón Óttar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður.
Fréttablaðið/Pjetur

Samherji birti yfirlýsingu á vefsíðu sinni og myndband á Youtube þann 29. janúar síðastliðinn þar sem Helgi Seljan sást fyrir utan skrifstofu Samherja í kýpur. Myndbandið hefur nú verið fjarlægt.

Kjarninn greinir frá því að Jón Óttar hafi sagt í samtali við Pál þann 29. febrúar að myndbandið kæmi úr öryggismyndavél hjá lögmannsstofu Samherja. „Haha já ok en djöfull er þetta gott á þá,“ svaraði Páll.

Kom fram í samtalinu að Samherji hyggðist taka viðtöl í Namibíu en slíkt viðtöl hafa þó ekki verið birt.

„Þetta er ákveðinn terrorismi“ sagði Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, í viðtali á Hringbraut í gær um áróðursherferð Samherja en fyrirtækið reyndi meðal annars að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna.

Þingmenn og ráðherrar hafa sömuleiðis fordæmt aðgerðir sjávarútvegsrisans á þingi og í samtali við blaðamenn. „Samherji er kominn langt út fyrir þessi mörk sem við teljum eðlileg í samfélaginu og það hef ég sagt áður en að reyna hafa áhrif á kjör blaðamanna, formann blaðamannafélagins finnst manni komið ennþá lengra yfir þau eðlilegu mörk sem að fólki starfi innan í þessu samfélagi okkar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.