Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir furðu sinni á tilraunum útgerðarfélagsins Samherja til að gera fréttaflutning af málefnum fyrirtækisins tortryggilegan og fordæmir þær aðferðir sem beitt er til þess.

Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn félagsins en stjórnendur Samherja hafa verið harðlega gagnrýndir eftir að fyrirtækið birti þátt á YouTube-rás sinni í gær.

Þar var dregin var upp sú mynd að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, hafi falsað gögn og beitt óheiðarlegum vinnubrögðum í umfjöllun sinni um fyrirtækið.

Gagnrýnin umfjöllun nauðsynleg

„Þær aðferðir eru ekki sæmandi fyrirtækinu og því mikilvæga hlutverki sem það gegnir í íslensku atvinnulífi, hlutverk sem því hefur verið falið af lýðræðislegum stofnunum samfélagsins,“ segir í ályktun Blaðamannafélagsins.

Mikilvægt hlutverk Samherja geri raunar ítarlega gagnrýna umfjöllun um starfsemi þess nauðsynlega.

„Fyrirtækið ætti að fagna allri umfjöllun um starfsemi sína og þeim tækifærum sem það gefur til að útskýra þau sjónarmið sem liggja starfseminni til grundvallar, en ekki að bregðast við með aðferðum sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem lágkúru, þar sem vegið er að trúverðugleika íslenskra fjölmiðla og fjölmiðlamanna.“

Þurfi að sætta sig við aðhald

Þá segir stjórn félagsins að stórfyrirtæki á borð við Samherja sem hafi mikilvægt samfélagsvald þurfi að sætta sig við gagnrýna umræðu og að fá aðhald frá fjölmiðlum í málefnum sem skipti almenning miklu.

Fjölmiðlum hafi verið skylt að fjalla um málið sem var til umfjöllunar í þeim Kastljósþætti sem gagnrýni Samherja beindist að og að stjórnendur hafi haft „óteljandi möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða grípa til annarra ráða sem þeim eru tiltæk að lögum.“

Þá segir í ályktuninni að þær aðferðir sem Samherji hafi nú beitt séu fordæmalausar í íslensku samfélagi og miði að því að fæla fjölmiðla frá því að fjalla um mál sem augljóst erindi eigi til almennings.