Samherji hyggst birta tölvupósta uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi stjórnanda Samherjafélaganna í Namibíu. Ekki verða þó birtir póstar sem snúa að persónulegum málefnum Jóhannesar, heldur eingöngu þeir sem snúa að starfi hans. Einnig verða birt önnur gögn. Þetta hefur Fréttablaðið eftir öruggum heimildum.

Jóhannes afhenti uppljóstrunarsíðunni WikiLeaks meira en 18 þúsund tölvupósta frá árunum 2014 til 2018. Gögnin voru notuð í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um starfsemi Samherja í Afríku. Gefa þau til kynna að háar mútugreiðslur hafi ratað til ráðamanna í Namibíu í skiptum fyrir fiskveiðikvóta og að háum fjárhæðum hafi verið stungið undan skatti. Bæði sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra Namibíu hafa sagt af sér og verið ákærðir ásamt fleirum fyrir að þiggja rúmlega 860 milljónir króna í mútugreiðslur. Málið er einnig til rannsóknar hjá Embætti héraðssaksóknara.

Samherji sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem Jóhannes er sagður hafa einungis afhent WikiLeaks hluta af tölvupóstum sínum, sem telja í heild 44 þúsund. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er tregða við að birta þá af ótta við að brjóta persónuverndarlög.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, vildi ekki staðfesta að póstarnir yrðu birtir. Hann segir það þó koma til greina að birta alla póstana. „Það kann alveg að vera. Ég hef ekki sjálfur litið á þessa tölvupósta en mér finnst það hljóta að koma til greina, ef það er eitthvað í þeim sem styður þá skoðun okkar að starfsemin hafi ekki verið eins og lýst hefur verið í þessum þáttum,“ segir Björgólfur.

„Mér finnst það vera alvarlegt áhyggjuefni að aðeins 42 prósent af tölvupóstunum séu birt inni á WikiLeaks og að þarna vanti heilt ár. Mér finnst það vekja upp spurningar og maður veltir því fyrir sér hvað sé í hinum tölvupóstunum, hvort það sé verið að teikna upp einhliða frásögn og birta eingöngu þau gögn sem styðja við þær ásakanir.“

Allir póstarnir verða afhentir lögmannsstofunni Wikborg Rein sem rannsakar nú málið fyrir hönd Samherja, lýkur þeirri rannsókn eftir nokkra mánuði. Björgólfur segir niðurstöður þeirrar rannsóknar verða opinberaðar og að henni megi treysta þar sem Wikborg Rein færi ekki að leggja orðspor sitt að veði fyrir Samherja.