Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra WOW Air, segir að flugrekstarhandbækur hins fallna flugfélags hafi verið afhentar fé­lagi Michele Ballarin, USA­erospace Partners, ef gögnin hafi ekki öll borist þá sé það ekki gott. Hann segir að Samgöngustofa hafi ekki viljað bera saman bækur WOW Air og Play Air, svörin þaðan hafi verið loðin.

Héraðsdómur Reykjaness féllst á að halda vitnaleiðslur vegna meintrar óheimilar notkunar Play Air á flugrekstarhandbókum WOW Air. Vitnaleiðslurnar hófust í morgun þar sem Sveinn Andri sat fyrir svörum Páls Ágústs Páls­sonar, lögmanns USA­erospace Partners.

Páll Ágúst Pálsson spurði Svein Andra spjörunum úr.
Mynd/Anton Brink

Flugrekstarhandbækurnar eru ein verðmætasta eign í þrotabúi WOW Air og eru ein forsenda til að fá flugrekstarleyfi hjá Samgöngustofu. „Umbjóðandi minn hefur ástæðu til að ætla að afrit hafi verið tekið af framangreindum flugrekstrarhandbókum, ásamt fylgiskjölum, án heimildar og vitneskju umbjóðanda míns, og gögnin hagnýtt af þriðja aðila til þess að sækja um flugrekstrarleyfi,“ sagði Páll Ágúst við Fréttablaðið í júní. Birgir Jóns­son, for­stjóri Play, hefur hafnað því al­farið að flug­rekstrar­gögn fé­lagsins byggi á stolnum gögnum frá WOW air.

Kerfið hafi verið opið í einhvern tíma

Sveinn Andri sagði í morgun að í byrjun skiptanna hafi verið ráðinn verktaki sem var áður kerfisstjóri hjá WOW Air til að halda utan um gögnin. Þau hafi verið hýst hjá Amazon og kostað um fimm milljónir á mánuði, kerfið hafi átt að vera sérstaklega varið gegn því að einhver utanaðkomandi kæmist inn í það. Kerfið hafi þó verið opið áfram í nokkrar vikur og starfsmenn hafi verið með aðgang að gögnum.

„Ef menn höfðu ásetning þá var kannski erfitt að koma í veg fyrir það,“ sagði Sveinn Andri. „En á þessum tíma var þetta ekkert sem menn höfðu áhyggjur af. Starfsfólk var í losti eftir þetta og við höfðum ekki áhyggjur af því að starfsfólk myndi misnota aðganginn. Það var starfsfólk sem þurfti að hafa aðgang áfram.“

Hægt og rólega hafi því svo verið lokað. Engin formleg innköllun hafi verið gerð á farsímum og tölvum, gert var ráð fyrir að starfsfólk gerði það. Sveinn Andri sagðist ekki vita um hvaða gögn hafi verið aðgengileg þar.

Páll Ágúst spurði svo út í tölvubúnað sem var á skrifstofum WOW Air í Katrínartúni. „Ég er ekki tölvunarfræðingur, ég vissi það að það væri ekki nóg að taka tölvur úr sambandi heldur þyrfti að hreinsa þær, gera þær eins og nýjar. Taka allt út frá félaginu, strauja vélarnar áður en þær voru seldar. Þeir voru þarna í marga daga að gera þetta,“ sagði Sveinn Andri og vísaði til verktaka.

Samgöngustofa hafi gefið loðin svör

Páll Ágúst spurði svo út í kerfisstjórann, hvort hann hafi eftir störf sín hjá WOW Air og þrotabúinu farið að starfa hjá tölvufyrirtæki sem hafi tekið að sér alla tölvuþjónustu fyrir Play Air. „Gæti verið,“ sagði Sveinn Andri.

Sveinn Andri sagði að það hafi aldrei neitt annað staðið til en að selja flugrekstrarhandbækurnar til USA­erospace Partners. Öll gögnin hafi verið hýst hjá Amazon.

„Þetta ætti allt að vera inn á Amazon, öll þessi gögn. Hvort einhver hafi tekið þessi gögn og farið með þau annað get ég ekki svarað.“

Samgöngustofa hafi ekki viljað bera saman flugrekstarhandbækur WOW Air og Play Air. Þá hafi verið fátt um svör frá Samgöngustofu vegna málsins.

Sjálfur hafi hann ekki séð flugrekstarhandbækurnar. Sem skiptastjóri standi hann í þeirri meiningu að bækurnar og gögn hafi verið afhent.

„En ef eitthvað upp á vantar er það ekki gott,“ sagði Sveinn Andri. „Hvort þriðji maður hafi komist inn og numið eitthvað á brott veit ég ekki.“ Hann hafi reynt að grafast fyrir um það og verið órólegur með það.

„Ég hafði áhyggjur af því að einhver þriðji aðili væri að nýta sér eignir sem við höfðum selt. Mín upplífum er að Samgöngustofa sé ekki að koma hreint til dyranna, svörin þeirra eru loðin og skrýtin.“