Samgöngustofu var ekki heimilt að ráða deildarstjóra í tímabundið starf án þess að auglýsa starfið laust til umsóknar.

Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Leitað var til umboðsmanns Alþingis og kvartað yfir ákvörðun um ráðningu í starf deildarstjóra upplýsingatæknideildar hjá Samgöngustofu.

Viðkomandi hafði verið meðal umsækjenda um starfið þegar það var auglýst í desember 2021. Lauk því ferli með því að Samgöngustofa ákvað að ráða engan.

Í maí 2022 réði stofnunin svo utanaðkomandi mann í starfið sem hafði ekki sótt um starfið þegar það var auglýst.

Umboðsmaður Alþingis tók málið til skoðunar til að kanna hvort ráðningin hefði verið í samræmi við meginregluna um að auglýsa skuli í störf hjá ríkinu.

Við meðferð málsins upplýsti Samgöngustofa umboðsmann Alþingis um að ekki hefði tekist að ráða nægilega hæfan mann úr hópi umsækjenda en nauðsynlegt hafi verið að manna starfið.

Þess vegna hafi sú ákvörðun verið tekin að ráða inn hæfan mann, sem vildi skipta um starfsvettvang, í starfið til tveggja ára án auglýsingar.

Umboðsmaður Alþingis telur kringumstæður Samgöngustofu ekki geta fallið að neinum gildandi undanþágum og því hafi ráðningin ekki verið í samræmi við lög.