Ef frumvarp til nýrra laga um fjarskipti verður samþykkt á haustþingi, getur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sett Huawei á Íslandi skorður með reglugerð.

Frumvarpið tekur á öryggishagsmunum Íslands í uppbyggingu 5G-netkerfa og var lagt fram í vor. Regluverkið er í samræmi við fordæmi Evrópuríkja í öryggismálum og ætlað að tryggja að 5G-netkerfin verði ekki of háð Huawei eða öðrum framleiðendum tæknibúnaðar.

Í greinargerð frumvarpsins er tekið fram að 3. mgr. 87. gr. veitir samgönguráðherra heimild til að setja á reglugerð um „að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem telst viðkvæmur með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni, eða að ákveðnu hlutfalli, vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við, eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.“

Samgönguráðherra þyrfti hins vegar að fá umsagnir dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra, áður en ákvörðunin yrði tekin.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fer með fjarskiptamál.

Ráðherra gæti þannig af öryggisástæðum bannað búnað frá Huawei í hluta af farnetum Íslands.„Þetta getur haft áhrif á alla sem nota búnað sem fellur undir þessi skilyrði. Það er Nova, Sýn eða Vodafone. Þessir aðilar notast við búnað frá Huawei að hluta til. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á þessa aðila,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Hrafnkell segir hins vegar að aldrei hafi verið sýnt fram á að það sé einhver óeðlileg virkni í búnaði frá Huawei. „Umræðan snýst í raun og veru um möguleikann,“ segir Hrafnkell og bætir við að ástæður erlendra ríkja fyrir því að banna Huawei, gætu bæði verið pólitískar og öryggistengdar.

Bretar banna fjarskiptafyrirtækjum að nota Huawei

Bresk stjórn­völd bönnuðu fjar­skipta­fyrir­tækjum í Bretlandi að nota búnað frá Huawei við upp­byggingu á 5G-neti Bret­lands. Fjar­skipta­fyrir­tækin þurfa að hætta að kaupa búnað frá kín­verska fyrirtækinu fyrir næstu ára­mót.

Oli­ver Dowden, ráð­herra stafrænna mála í Bret­landi, til­kynnti um á­kvörðunina í breska þinginu í há­deginu á þriðjudag. Hann sagði á­kvörðunina tekna af öryggis­á­stæðum, en hún var tekin eftir fund ríkis­stjórnarinnar og þjóðar­öryggis­ráðs Bret­lands. Fjar­skipta­fyrir­tæki í Bret­landi hafa til ársins 2027 til þess að losa sig við allan búnað frá Huawei úr fjar­skipta­kerfum sínum.

Löggjöfin þarf að tryggja stjórnvöldum tæki til að bregðast við

Guð­laugur Þór Þórðar­son, utan­ríkis­ráð­herra Ís­lands, segir að raun­veru­leg ógn stafi af net­á­rásum og að það sé brýnt þjóðaröryggis­mál að efla varnir okkar.

„Það er sam­dóma álit þeirra ríkja sem við berum okkur saman við, meðal annars Norður­landanna, að lýð­ræði okkar, lífs­háttum og öryggi stafi raun­veru­leg ógn af net­á­rásum og fjöl­þátta­ógnum. Það er afar brýnt þjóðar­öryggis­mál að efla varnir okkar og við­náms­þol, meðal annars með því að styrkja grunn­inn­viði ríkisins, svo sem fjar­skipta­inn­viði og efla vitund og þekkingu á þessum vá­gesti,“ sagði Guð­laugur í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Við þurfum að tryggja að lög­gjöf okkar tryggi stjórn­völdum á hverjum tíma tæki til þess að bregðast við og tryggja öryggi landsins og lands­manna. Það er þjóðar­öryggis­mál fyrir Ís­land að geta á­fram átt greið fjar­skipti við banda­lags­ríki, og að þau líti á Ís­land sem öruggt fjar­skipta­um­hverfi,“ segir hann enn fremur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir Norðurlöndin sammála um að ógn stafi af netárásum.
Fréttablaðið/Valli

Fylgja evrópska reglu­verkinu og horfa til Norður­landa

Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhanns­son við vinnslu fréttarinnar, en í sam­tali við Markaðinn í vor þegar frum­varpið var kynnt, sagði hann að til­gangur frum­varpsins væri að tryggja að fleiri en einn fram­leiðandi væri á bak við fjar­skipta­kerfið á Ís­landi.

„Lík­legasta leiðin sem við förum í þessum efnum er að fylgja evrópska reglu­verkinu og horfa sér­stak­lega til Norður­landa. Þar hefur verið leit­ast við að tryggja að það séu að lág­­marki tveir fram­leið­endur á bak við fjar­skipta­kerfið og auk þess hafa verið settar reglur um til­tekinn búnað innan kerfisins, sem varðar al­manna­varnir og öryggis­mál,“ sagði Sigurður Ingi.

Tíðniheimildir teknar af bótalaust

Póst- og fjar­skipta­stofnun hefur ný­lega út­hlutað tíðni­heimildum fyrir 5G-þjónustu til Nova, Símans og Sýnar, sem gilda til árs­loka 2021. Í næstu um­ferð verður út­hlutað til lengri tíma, minnst 15 ára, en lík­legt er að þá verði gerðar strangari kröfur um búnað í kerfinu, að sögn Sigurðar Inga.

„Næstu misseri geta komið fram kröfur sem við munum setja í lög og út­hlutun tíðni­heimilda gæti þurft að taka mið af þeim,“ sagði Sigurður Ingi í vor, en ef fyrir­tækin sem fengu tíðni út­hlutað tímabundið sætta sig ekki við þær reglur, getur komið til þess að þau fái ekki tíðni út­hlutað að nýju, og sam­kvæmt skil­yrðum Póst- og fjar­­skipta­­stofnunar yrði það gert bóta­­laust.