Sam­göngu­stofa segir að ó­tíma­bært sé að segja til um hvort ráðist verði í svipaðar að­gerðir hér á landi líkt og kín­versk flug­mála­yfir­völd og flug­fé­lagið Et­hiopian Air­lines hafa gert með því að kyrr­setja flug­vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Icelandair gerir út þrjár farþegaþotur sömu tegundar.

„Sam­göngu­stofa er í góðu sam­starfi við og fylgist mjög vel með þeim á­kvörðunum sem teknar verða hjá Flug­öryggis­stofnun Evrópu (EASA), sem er okkar sam­starfs­aðili í flug­öryggi,“ segir Þór­hildur Elínar­dóttir, samskiptastjóri Sam­göngu­stofu, í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Öryggi keppikefli íslenskra flugrekenda

Kín­versk flug­mála­yfir­völd greindu frá því í dag að þau hygðust kyrr­setja allar 96 Boeing 737 MAX 8 vélar sem kín­versk flug­fé­lög eru með á sínum snærum. Et­hiopian Air­lines, sem átti vélina sem fórst í gær með þeim af­leiðingum að 157 létust, hefur til­kynnt slíkt hið sama. 

Þór­hildur segir að Sam­göngu­stofa vakti málið vel og hafi verið í sam­bandi við Icelandair vegna málsins. Ekki hafi verið tekin á­kvörðun um að fara sömu leið og Kín­verjar. „Við sjáum hverju fram vindur. Það eru auð­vitað hags­munir allra að fyllsta öryggis sé gætt. Það aðal keppi­kefli ís­lenskra flug­rek­enda að flug­öryggi sé tryggt. Það er alltaf fyrst og fremst í öllum á­kvörðunum.“ 

Nánast óþekktar aðgerðir

Að­spurð hvað þyrfti að gerast til að ráðist yrði í kyrr­setningar­að­gerðir segir hún að sömu­leiðis sé ó­tíma­bært að svara því. 

„Eina sem ég get sagt akkúrat núna er að það er af­skap­lega vel fylgst með, bæði sam­starfi Evrópu­þjóða um að tryggja flug­öryggi í gegnum Flug­öryggis­stofnun Evrópu og hjá heima­þjóð flug­véla­fram­leiðandans sem eru Banda­ríkin,“ segir Þór­hildur og bætir við að fylgst sé með við­brögðum banda­rískra flug­mála­yfir­valda vegna málsins. 

Að­gerðir af þessu tagi séu síður en svo al­gengar. „Það er ekki al­gengt að svona mál komi upp. Það er bara mjög sjaldan, nánast ó­þekkt.“

Jens Þórðar­son, fram­kvæmda­stjóri rekstrar­sviðs Icelandair, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að ó­tíma­bært væri að ráðast í kyrr­setningar­að­gerðir á vélum fé­lagsins. „Við erum að bíða eftir því að fólk átti sig og við tökum stöðuna þegar eitt­hvað kemur í ljós um á­stæður slyssins, en enn sem komið er engin á­stæða til að óttast þessar vélar.“