Samgöngustofa segir að ótímabært sé að segja til um hvort ráðist verði í svipaðar aðgerðir hér á landi líkt og kínversk flugmálayfirvöld og flugfélagið Ethiopian Airlines hafa gert með því að kyrrsetja flugvélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Icelandair gerir út þrjár farþegaþotur sömu tegundar.
„Samgöngustofa er í góðu samstarfi við og fylgist mjög vel með þeim ákvörðunum sem teknar verða hjá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA), sem er okkar samstarfsaðili í flugöryggi,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, í samtali við Fréttablaðið.
Öryggi keppikefli íslenskra flugrekenda
Kínversk flugmálayfirvöld greindu frá því í dag að þau hygðust kyrrsetja allar 96 Boeing 737 MAX 8 vélar sem kínversk flugfélög eru með á sínum snærum. Ethiopian Airlines, sem átti vélina sem fórst í gær með þeim afleiðingum að 157 létust, hefur tilkynnt slíkt hið sama.
Þórhildur segir að Samgöngustofa vakti málið vel og hafi verið í sambandi við Icelandair vegna málsins. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um að fara sömu leið og Kínverjar. „Við sjáum hverju fram vindur. Það eru auðvitað hagsmunir allra að fyllsta öryggis sé gætt. Það aðal keppikefli íslenskra flugrekenda að flugöryggi sé tryggt. Það er alltaf fyrst og fremst í öllum ákvörðunum.“

Nánast óþekktar aðgerðir
Aðspurð hvað þyrfti að gerast til að ráðist yrði í kyrrsetningaraðgerðir segir hún að sömuleiðis sé ótímabært að svara því.
„Eina sem ég get sagt akkúrat núna er að það er afskaplega vel fylgst með, bæði samstarfi Evrópuþjóða um að tryggja flugöryggi í gegnum Flugöryggisstofnun Evrópu og hjá heimaþjóð flugvélaframleiðandans sem eru Bandaríkin,“ segir Þórhildur og bætir við að fylgst sé með viðbrögðum bandarískra flugmálayfirvalda vegna málsins.
Aðgerðir af þessu tagi séu síður en svo algengar. „Það er ekki algengt að svona mál komi upp. Það er bara mjög sjaldan, nánast óþekkt.“
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að ótímabært væri að ráðast í kyrrsetningaraðgerðir á vélum félagsins. „Við erum að bíða eftir því að fólk átti sig og við tökum stöðuna þegar eitthvað kemur í ljós um ástæður slyssins, en enn sem komið er engin ástæða til að óttast þessar vélar.“