Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar telur að hinir sex Klaustursþingmenn eigi að segja af sér. Telur stjórnin þingmennina rúna trausti og og óskandi sé að hópurinn seti virðingu Alþingis og traust á stjórnmálum í landinu ofar eigin hag og segðu af sér þingmennsku, að því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá framkvæmdarstjórn Samfylkingarinnar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá framkvæmdarstjórn Samfylkingarinnar sem send var út rétt í þessu. Þar eru ummæli sexmenninganna, sem sátu á sumbli á barnum Klaustur fyrir rúmum tveimur vikum og fóru þar ófögrum orðum um hina ýmsu þingmenn og aðra þekkta einstaklinga, fordæmd. 

„Sárt er að verða vitni að samtali sem opinberar slíka mannfyrirlitningu. Vandséð er hvernig hægt sé að ætlast til þess að samstarfsfólk þingmannanna á Alþingi vinni með þeim á ný — ekki síst ef haft er í huga að afsökunarbeiðnir viðkomandi þingmanna hafa að mestu einkennst af undanbrögðum frekar en iðrun. Upptökurnar eru jafnframt, og því miður, til vitnis um bakslag í jafnréttisbaráttu kynjanna, í baráttu kvenna, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Það er grátlegt að jaðarsettir hópar þurfi að sitja undir slíkum árásum enn þann dag, sér í lagi af hálfu þeirra sem setja lög í landinu um réttindi þeirra og kjör,“ segir í fréttatilkynningunni. 

Fréttatilkynningin í heild sinni

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar fordæmir ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem féllu á veitingastaðnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Hegðun af því tagi er engum sæmandi og allra síst kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga.

Sárt er að verða vitni að samtali sem opinberar slíka mannfyrirlitningu. Vandséð er hvernig hægt sé að ætlast til þess að samstarfsfólk þingmannanna á Alþingi vinni með þeim á ný — ekki síst ef haft er í huga að afsökunarbeiðnir viðkomandi þingmanna hafa að mestu einkennst af undanbrögðum frekar en iðrun. Upptökurnar eru jafnframt, og því miður, til vitnis um bakslag í jafnréttisbaráttu kynjanna, í baráttu kvenna, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Það er grátlegt að jaðarsettir hópar þurfi að sitja undir slíkum árásum enn þann dag, sér í lagi af hálfu þeirra sem setja lög í landinu um réttindi þeirra og kjör.

Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar telur að vegna framgöngu sinnar og viðbragða séu viðkomandi þingmenn rúnir trausti. Óskandi væri að þeir settu virðingu Alþingis og traust á stjórnmálum í landinu ofar eigin hag, og segðu af sér þingmennsku.

Samfylkingin er flokkur jafnaðarmanna og málsvari mannréttinda, jafnréttis og kvenfrelsis, og lítur á þannig á það sem hlutverk sitt að styðja við og valdefla þá hópa sem jaðarsettir eru í samfélaginu.