Samfylkingin er í stórsókn í Hafnarfirði samkvæmt nýrri könnun Prósents. Flokkurinn mælist nú með 31 prósent og fjóra bæjarfulltrúa en í kosningunum árið 2018 fékk hann rúmlega 20 prósent og hefur tvo fulltrúa í dag.
Athygli vekur að fylgisaukningin kemur ekki á kostnað Sjálfstæðisflokksins sem mælist áfram stærstur í sveitarfélaginu. Í könnuninni heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínum 34 prósentum sem hann fékk árið 2018 en missir hins vegar einn fulltrúa.
Í þriðja sæti kemur Framsóknarflokkurinn, sem situr í meirihluta með Sjálfstæðisflokki, með 9 prósent sem er bæting um 1 prósentustig frá síðustu kosningum. Bæði Viðreisn og Píratar mælast með 7 prósent og einn mann inni en Píratar hafa engan í dag.
Þrjú framboð mælast ekki inni með mann. Það er Bæjarlistinn, Miðflokkurinn og Vinstri græn sem hafa á bilinu 4 til 5 prósent. Bæði Bæjarlistinn og Miðflokkurinn hafa einn bæjarfulltrúa í dag.
Samkvæmt þessari könnun myndi því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks falla á einum manni þrátt fyrir að hafa samanlagt bætt við sig einu prósentustigi. Er það vegna þess hvernig fulltrúar skiptast á aðra flokka samkvæmt d’Hondt-reglu en hluti atkvæða hefur engan fulltrúa á bak við sig.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur best á kjósendum sínum frá 2018. Ætla 76 prósent þeirra að kjósa hann aftur.
Samfylkingin tekur hins vegar mjög mikið fylgi af öðrum flokkum, til að mynda 42 prósent af þeim sem kusu Pírata árið 2018, 39 prósent af kjósendum Vinstri grænna og 37 af kjósendum Bæjarlistans. Aðeins 22 prósent ætla að kjósa Bæjarlistann aftur og 21 prósent Vinstri græn.
Töluverður fylgismunur mælist í póstnúmerunum tveimur. Sjálfstæðisflokkurinn er með 45 prósenta fylgi á Völlunum, það er í póstnúmeri 221, en aðeins 25 prósent í 220, sem er Miðbær og önnur grónari hverfi Hafnarfjarðar. Samfylkingin mælist aftur á móti með 36 prósent í póstnúmeri 220 en aðeins 24 prósent á Völlunum.
Flestir Hafnfirðingar vilja sjá Guðmund Árna Stefánsson, oddvita Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, sem bæjarstjóra á ný, eða 34 prósent. Hann var bæjarstjóri árin 1986 til 1993. Lítið færri, eða 32 prósent, vilja að Rósa Guðbjartsdóttir úr Sjálfstæðisflokki haldi áfram sem bæjarstjóri.
Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokks, fær 9 prósent og aðrir 5 prósent eða minna.
Könnunin var netkönnun framkvæmd 3. til 10. maí. Úrtakið var 680 einstaklingar og svarhlutfallið 50,5 prósent.
