Sam­fylkingin er í stór­sókn í Hafnar­firði sam­kvæmt nýrri könnun Prósents. Flokkurinn mælist nú með 31 prósent og fjóra bæjar­full­trúa en í kosningunum árið 2018 fékk hann rúm­lega 20 prósent og hefur tvo full­trúa í dag.

At­hygli vekur að fylgis­aukningin kemur ekki á kostnað Sjálf­stæðis­flokksins sem mælist á­fram stærstur í sveitar­fé­laginu. Í könnuninni heldur Sjálf­stæðis­flokkurinn sínum 34 prósentum sem hann fékk árið 2018 en missir hins vegar einn full­trúa.

Í þriðja sæti kemur Fram­sóknar­flokkurinn, sem situr í meiri­hluta með Sjálf­stæðis­flokki, með 9 prósent sem er bæting um 1 prósentu­stig frá síðustu kosningum. Bæði Við­reisn og Píratar mælast með 7 prósent og einn mann inni en Píratar hafa engan í dag.

Þrjú fram­boð mælast ekki inni með mann. Það er Bæjar­listinn, Mið­flokkurinn og Vinstri græn sem hafa á bilinu 4 til 5 prósent. Bæði Bæjar­listinn og Mið­flokkurinn hafa einn bæjar­full­trúa í dag.

Sam­kvæmt þessari könnun myndi því meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks falla á einum manni þrátt fyrir að hafa saman­lagt bætt við sig einu prósentu­stigi. Er það vegna þess hvernig full­trúar skiptast á aðra flokka sam­kvæmt d’Hondt-reglu en hluti at­kvæða hefur engan full­trúa á bak við sig.

Sjálf­stæðis­flokkurinn heldur best á kjós­endum sínum frá 2018. Ætla 76 prósent þeirra að kjósa hann aftur.

Sam­fylkingin tekur hins vegar mjög mikið fylgi af öðrum flokkum, til að mynda 42 prósent af þeim sem kusu Pírata árið 2018, 39 prósent af kjós­endum Vinstri grænna og 37 af kjós­endum Bæjar­listans. Að­eins 22 prósent ætla að kjósa Bæjar­listann aftur og 21 prósent Vinstri græn.

Tölu­verður fylgis­munur mælist í póst­númerunum tveimur. Sjálf­stæðis­flokkurinn er með 45 prósenta fylgi á Völlunum, það er í póst­númeri 221, en að­eins 25 prósent í 220, sem er Mið­bær og önnur grónari hverfi Hafnar­fjarðar. Sam­fylkingin mælist aftur á móti með 36 prósent í póst­númeri 220 en að­eins 24 prósent á Völlunum.

Flestir Hafn­firðingar vilja sjá Guð­mund Árna Stefáns­son, odd­vita Sam­fylkingarinnar og fyrr­verandi ráð­herra, sem bæjar­stjóra á ný, eða 34 prósent. Hann var bæjar­stjóri árin 1986 til 1993. Lítið færri, eða 32 prósent, vilja að Rósa Guð­bjarts­dóttir úr Sjálf­stæðis­flokki haldi á­fram sem bæjar­stjóri.

Valdimar Víðis­son, odd­viti Fram­sóknar­flokks, fær 9 prósent og aðrir 5 prósent eða minna.

Könnunin var net­könnun fram­­kvæmd 3. til 10. maí. Úr­­takið var 680 ein­staklingar og svar­hlut­­fallið 50,5 prósent.